Gætu hvergi annars staðar búið

Hjónin Noémie og Caryl Chaverot.
Hjónin Noémie og Caryl Chaverot. Ljósmynd/Guðrún Vala

Hjónin Noémie og Caryl Chaverot eru búsett skammt frá Borgarnesi ásamt börnum sínum þremur. Þau koma frá Lyon í Frakklandi og eru bæði frönsk. Nýlega festu þau kaup á einbýlishúsi á jörðinni Ánabrekku þar sem þau búa og ætla að ala börnin sín upp í íslenskri náttúru og sveitasælu.

Það var alltaf upphaflegi tilgangurinn, en þau hjón höfðu hugsað sér að finna réttan stað til að búa á utan Frakklands. Þau höfðu velt nokkrum möguleikum fyrir sér en eftir Íslandsferð í júní 2014 gátu þau ekki hugsað sér annað land til að búa á.

Ísland alveg einstakt

„Já, við komum fyrst hingað í frí og ferðuðumst hringinn í kringum landið. Börnin okkar þrjú; Camille, Timoté og Lénoa, sem þá voru sex, þriggja og eins árs, voru í pössun heima hjá ættingjum. Við upplifðum Ísland sem alveg sérstakt og einstakt land. Íslendingar, náttúran, jöklarnir, eldfjöllin og lítil mengun, allt hafði þetta áhrif á okkur. Okkur finnst samspil manns og náttúru hér vera þannig að það er bæði virðing og umhyggja gagnvart náttúrunni en samt ákveðið varnarleysi. Hér er líka einhver mennska sem ekki er annars staðar, alla vega ekki lengur í Frakklandi. Sem dæmi má nefna að í þessari ferð stoppuðum við bílinn einu sinni, einhvers staðar fyrir norðan og vorum bara að borða nestið okkar. Allt í einu var bankað á bílrúðuna, okkur brá eðlilega en þetta var þá bara vingjarnlegur Íslendingur að spyrja hvort ekki væri allt í lagi hjá okkur,“ segir Noémie, nokkurn veginn alveg á íslensku sem hún vill helst tala. Henni finnst reyndar íslenskan vera mjög erfið en segir það hjálpa að hún hafi ekki verið góð í ensku fyrir og reyni þess vegna alltaf að tala íslensku frekar. Börnin tala nú þegar reiprennandi íslensku, Caryl smávegis, en hundurinn Domino skilur eiginlega bara frönsku.

Þekktu engan

Caryl og Noémie ásamt börnunum Camille, 11 ára, Timoté, 8 …
Caryl og Noémie ásamt börnunum Camille, 11 ára, Timoté, 8 ára, og Lénoa, 6 ára. Hundurinn Domino fékkst til að sitja fyrir um stund. Ljósmynd/Guðrún Vala Elísdóttir

Caryl tekur undir orð Noémie hvað varðar uppeldi barnanna og segir að þau vilji ala börnin sín upp þar sem þau geti verið frjáls, örugg, sjálfstæð og orðið góðar manneskjur í jákvæðu umhverfi. „Þetta var góð ákvörðun en auðvitað veltum við vöngum yfir því hvort okkur myndi takast að flytja til Íslands. Við þekktum engan hér en ákváðum að koma aftur hingað í apríl 2015 til þess að svipast um eftir vinnu og undirbúa okkur fyrir flutninga hingað.“

Þau hjónin voru 10 daga á landinu í þessari ferð, mest í Reykjavík en einnig á Akureyri og heimsóttu þau mörg fyrirtæki með ferilskrána hans Caryl og óskuðu eftir starfi. Caryl, sem er menntaður verkfræðingur, langaði að fá starf hjá orkufyrirtæki og hefur sérstakan áhuga á hitaveitum. Því miður fundu þau enga vinnu í þessari ferð og sneru aftur heim til Frakklands.

Kynna íslenskt handverk

Noémie er menntuð í markaðssamskiptum og eftir Íslandsferðina stofnaði hún vefverslun (www.icelanded.com) sem selur íslenskt handverk. Þar fyrir utan hefur hún rekið franska stefnumótasíðu sem gaf ágætlega í aðra hönd áður fyrr, en núna segir hún ekki mikið að græða á vefnum.

„Áður fyrr greiddi fólk skráningargjald en núna keyrum við mest á auglýsingum. Þetta er alls ekki nóg til að geta lifað af þessu. Hins vegar hafði ég gaman af því að koma íslensku handverki áfram í Frakklandi og er enn að.“

Eftir þessa seinni Íslandsferð þeirra sáu þau að þetta gengi ekki upp. Eina ráðið væri að flytja til Íslands og ráðast í þetta. Noémie flaug með börnin hingað en Caryl kom skömmu áður á bílnum með Norrænu haustið 2015.

„Við byrjuðum á að búa á hótelum í tvær vikur, í Keflavík og Reykjavík, en svo fengum við leigt sumarhús í Hafnarskógi og Caryl fékk vinnu í garðyrkjustöðinni Sólbyrgi í Borgarfirði. Þá fórum við að leita að skóla og leikskóla fyrir börnin, sem reyndar tóku þessum aðstæðum mjög vel, en við fengum að vita að skólarnir í Borgarnesi gætu ekki tekið við þeim af því að það væri annað sveitarfélag hinum megin við brúna. Svo fengum við upplýsingar um að gott væri að vera á Hvanneyri, þar væri bæði skóli og leikskóli og allt í göngufæri þannig að við fengum leigt húsnæði þar. Í nóvember var allt komið í röð og reglu,“ segir Noémie og brosir ánægð. En þau langaði í meiri sveit og fengu síðar leigt á Mófellsstöðum í Skorradal og þá hafði border collie-hvolpurinn Domino bæst við fjölskylduna. Caryl fékk vinnu sem verkfræðingur hjá Loftorku (nú Steypustöðinni) og Noémie fór að vinna við frístund barna í skólanum á Hvanneyri.

Leist vel á Ánabrekku

Til að fullkomna íslenska drauminn langaði þau að byggja sér hús, sem Caryl teiknaði og var hann búinn að semja um sanngjarnt verð á einingum frá Loftorku. Þau fóru að leita sér að lóð eða landsspildu og vildu helst vera áfram í Skorradalnum eða nálægt skólanum á Hvanneyri. Hins vegar var erfitt að finna stað í sveit með auðveldu aðgengi að veitum, s.s. rafmagni og vatni. Þess vegna fylgdust þau með framboði á fasteignum og auglýsingum til að skoða hvað væri til sölu. Þegar þau sáu húsið að Ánabrekku ákváðu þau að fara að skoða.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »