Kári: „Við höfum borgað“

Kári Stefánsson vill snúa sér að öðru en kórónuveirunni.
Kári Stefánsson vill snúa sér að öðru en kórónuveirunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkvæmt nýjustu yfirlýsingum er Íslensk erfðagreining að draga sig út úr skimunum við landamæri Íslands á þriðjudaginn í næstu viku. Þar með lýkur þeirra þætti í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn, sem hófst strax í upphafi hans með greiningu á gögnum og ráðgjöf um aðgerðir, en tók á sig efnislegri mynd þegar einkafyrirtækið tókst það verk á hendur að skima 20% af þjóðinni fyrir veirunni. 

Kári Stefánsson forstjóri fyrirtækisins hefur sagt að þetta hafi kostað fyrirtækið 1,2 milljarða króna á mánuði. Skimunin varði frá 12. mars til 13. júlí (ef henni lýkur þá), þannig að samtals mun fyrirtækið gróflega áætlað hafa varið um 4,8 milljörðum í verkefnið úr eigin vasa.

Það, fyrir 72.452 sýnatökur fyrir veirunni og 30.000 blóðsýni fyrir mótefnum. Kári segir: „Markmiðið var ekki að fá neitt fyrir þetta,“ eins og lesa má um í samtali mbl.is við hann um þessi tímamót.

„Fannst að við yrðum að gera þetta“

Blaðamaður: „Hver borgar fyrir þetta allt?“

Kári: „Við borgum. Við höfum borgað.“

Blaðamaður: „Og mynduð þið halda áfram skimuninni ef þið fengjuð greitt sem verktaki?“

Kári: „Nei. Þetta hefur ekkert með peninga að gera. Ekki nokkurn skapaðan hlut.“

Blaðamaður: „Hvað þá?“

Kári: „Okk­ar hlut­verk er ekki að sinna svona skimun. Við gerðum það af því að þetta var svona „all-hands-on-deck“-augna­blik, þar sem allir legðu sitt af mörkum, sneru bökum saman og ynnu að einu markmiði. Síðan vorum við ekki aðeins í að taka sýni úr fólki, heldur vorum við í því að búa til þann skilning á veirunni sem þurfti til að geta brugðist við. Þetta höfum við gert allan þennan tíma vegna þess að þegar þú ert að vinna við svona faraldur þá ertu raunverulega miklu meira bara að sækja þekkingu. Þetta er allt öðruvísi en venjuleg læknisfræði og við erum sérstaklega í stakk búin til að sinna slíku. Og þess vegna fannst okkur að við yrðum að gera þetta.“

Blaðamaður: „Og hvað nú?“

„Ríkið á bara að hlúa að þess­ari veiru­fræðideild uppi á Land­spít­ala. Þau geta auðveld­lega tekið þetta að sér. Ég held að það sé öll­um fyr­ir bestu að við séum ekki í þessu leng­ur. Við erum búin að leggja ótrú­lega mikla vinnu af mörk­um og það er bara komið nóg. Nú verðum við að snúa okk­ur að dag­vinn­unni,“ segir Kári og var haft eftir honum í þessari grein sem birtist fyrr í dag. Næst á dagskrá: „Við erum að skoða alla sjúkdóma á milli himins og jarðar. Ég þarf að setjast núna niður og fara að skoða handrit að grein sem fjallar um arfgenga tilhneigingu til þess að vera með mjög háa blóðfitu. Við þurfum að ljúka henni og við þurfum að ljúka alls konar greinum.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur síðan sagt að hún vonist til að geta áfram leitað til starfsfólks fyrirtækisins vegna þeirrar þekkingar og reynslu sem þar er innandyra. Hún hefur ekki sagt hvort ríkið ætli að koma sér sjálft upp innviðum til að sinna skimuninni, eins og Kári hefur sagt að sé nauðsynlegt.

Kári hefur gagnrýnt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra …
Kári hefur gagnrýnt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrir að koma ekki upp skimunaraðstöðu á vegum ríkisins á meðan Íslensk erfðagreining sinnir henni tímabundið. mbl.is/Árni Sæberg

95% gáfu leyfi fyrir öllu

Ekki aðeins skimaði Íslensk erfðagreining fyrir kórónuveirunni, heldur tók hún einnig blóð hjá 30.000 Íslendingum til að prófa það fyrir mótefnum í veirunni. Niðurstaðan er að um 1% þjóðarinnar hefur mótefni, en blóðsöfnunin þjónaði ekki einvörðungu þeim tilgangi að mótefnamæla vegna veirunnar, heldur var þátttakendum boðið að skrifa undir þrjú plögg. 

Eitt var vegna mótefnamælingarinnar sjálfrar, annað var vegna samstarfsrannsóknar á vegum Landspítala, landlæknis og Íslenskrar erfðagreiningar á COVID-19 og undirliggjandi sjúkdómum, og hið þriðja laut að samþykki fólks fyrir því að Íslensk erfðagreining fengi leyfi til að nota blóðið til framtíðarlæknisfræðirannsókna.

Kári segir að 95% af þeim sem gáfu blóðið sitt hafi gefið samþykki sitt fyrir öllu þrennu.

Blaðamaður: „Er það ekki veisla fyrir ykkur?“

Kári: „Af hverju ætti það að vera veisla fyrir okkur?“

Blaðamaður: „Að fá þessi gögn. Eða er það ekki mikils virði að vera með blóðið úr öllu þessu fólki?“

Kári: „Jú, jú, það er mögulegt en flest af þessu er tiltölulega ungt fólk sem er ekki með mikið af sjúkdómum, þannig að við fáum ekki mikið út úr því í sjálfu sér. Við erum aðallega að fá þetta til að geta rannsakað þessa veiru í tengslum við aðra sjúkdóma.“

Blaðamaður: „Þið eruð þá einfaldlega risastór stofnun sem tekur ákvörðun um að skima fyrir veirunni hérna í marga mánuði án þess að fá nokkuð fyrir?“

Kári: „Markmiðið var ekki að fá neitt fyrir þetta. Þetta var ósköp einfaldlega tilraun til að taka þátt í því sem þarf til að ná þessu undir kontról.“

Auðugur sósíalisti

Eins og Kári hefur sagt tók bandarískur eigandi Íslenskrar erfðagreiningar, Amgen, vel í tillögur Kára um að taka þátt í skimun á Íslandi og hvatti hann til þess að gera það. Kári hefur síðan þurft að árétta við Íslendinga að engin gróðavon búi að baki aðgerðum fyrirtækisins í veirunni.

Undirritaður fór í mótefnamælingu og skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu en kaus að skrifa ekki undir þriðja þáttinn. 

Fundur í íslenskri erfðagreiningu í lok maí. Kári: „Við erum …
Fundur í íslenskri erfðagreiningu í lok maí. Kári: „Við erum aðallega að fá þetta til að geta rannsakað þessa veiru í tengslum við aðra sjúkdóma.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári: „Má ég vita hvers vegna þú skrifaðir ekki undir þriðja liðinn?“ 

Blaðamaður: „Ég var í smá uppreisn og kunni ekki við það, því einhvers staðar heyrði ég að þið væruð að skima meira en þörf væri á út frá sóttvarnasjónarmiðum.“ 

Kári: „Og ef rétt reyndist, þá væri glæpurinn sá að við værum að búa til skilning á öðrum sjúkdómum. Er það vont? Hvernig er það vont?“

Blaðamaður: „Ég ímyndaði mér að einhver væri hugsanlega að fara að græða á gögnum um mig.“

Kári: „Þetta hafði ekkert með prófít að gera. Við erum eingöngu að vinna í rannsóknum.“

Blaðamaður: „Fyrirtæki og félög eru rekin af ákveðnum ástæðum. Og það eru eigendur að þeim.“

Kári: „Segjum þá: Þú vilt frekar að það séu ekki til lyf við hjartaáföllum ef einhver hefur grætt á því heldur en að það séu til lyf. Þú gerir þér grein fyrir því að 99,9% af öllum lyfjum í heiminum eru búin til af fyrirtækjum sem eru rekin til að græða á þeim. Ef þú ætlar bara að taka gróðann í burtu því að markmiðið hjá þér er að það græði enginn á þessu, þá er markmiðið hjá þér að það verði ekki til nein lyf.“

Blaðamaður: …

Kári: „Það sem þú ert raunverulega í byltingu gegn er þessi kapítalismi, sem er „disgusting“, og lyfjafyrirtækin sem heild, sem iðnaður, hefur verið sérstaklega „disgusting“ í því hvernig þau verðleggja lyf þannig að þau eru ekki aðgengileg nema litlum hluta heimsins. Dæmi: Besta lyf sem til er í heimi við mergæxlum, það kostar eina milljón dollara að meðhöndla einn sjúkling með því.“

Blaðamaður: …

Kári: „Ef við ætlum raunverulega í byltingu gegn þessu væri það bara Karl Marx all over again, sem er bara fínt, en að vilja ekki að það sé búin til þekking um eðli sjúkdóma vegna þess að einhver kynni að nota hana til að búa til lyf sem hann gæti kannski grætt á, það er heimskulegt.“

Blaðamaður: „Þú ert ekki á móti Karl Marx?“

Kári: „Nei. Ég hef verið sósíalisti alla mína ævi og verð það til æviloka. Það er erfitt að vera auðugur sósíalisti hins vegar. Það býr til alls konar paradox í lífi manns.“

mbl.is