„Legið fyrir frá upphafi“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kári Stefánsson.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Kári Stefánsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist hafa fullan skilning á ákvörðun Íslenskrar erfðagreiningar um að láta af skimun fyrir kórónuveirunni. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sendi í dag Katrínu bréf þar sem hann tilkynnti að þætti íslenskrar erfðagreiningar í skimun fyrir kórónuveirunni væri lokið eftir 13. júlí. 

Katrín segir í samtali við mbl.is að hún sé sammála Kára um að efla þurfi getu heilbrigðiskerfisins til að takast á við stóra faraldra. 

„Aðalatriðið er að mínu mati að það finnist farsæl lausn á þessu máli. Ég tel að ég og Kári Stefánsson séum alveg sammála um mikilvægi þess að efla getu íslensks heilbrigðiskerfis til að takast á við faraldra á borð við þann sem nú hefur geisað. Ég tel hans tillögu um að koma á laggirnar stofnun innan landlæknisembættisins góða og hef boðað að það verði innan vébanda sóttvarnalæknis settur sérstakur verkefnastjóri til að skoða hvernig megi efla þessa innviði,“ segir Katrín. 

Hefur fullan skilning á ákvörðun ÍE

Kári sagði í viðtali við mbl.is í dag að tillaga Katrínar um verkefnastjórann sem skila á áliti fyrir 15. september væri virðingarleysi gagnvart verkefninu sem blasir við og skortur á skilningi á því sem er að gerast. 

Þá hefur Kári sagt að ákvörðun ÍE hafi ekkert með peninga að gera. Fyrirtækið þurfi einfaldlega að snúa sér aftur að sínum verkefnum. Katrín segist hafa fullan skilning á þessu. 

„Ég hef fullan skilning á því og vonast auðvitað til þess að við getum áfram leitað til hans og hans starfsfólks. Ég hef ítrekað bent á það að þessi samvinna einkaaðila og opinberra aðila er auðvitað einsdæmi og hefur gengið mjög vel, en eins og ég segi hef ég fullan skilning á því að Íslensk erfðagreining geti ekki sinnt þessu til eilífðarnóns og ég vona að við getum fundið einhverja leið svo við náum að yfirfæra verkefnin með farsælum hætti. Það er ljóst að þetta kallar auðvitað á nýja nálgun á þetta verkefni,“ segir Katrín. 

Kári sagði í dag að vikufrestur ætti að gefa stjórnvöldum nægt svigrúm til þess að búa sig undir að taka við skimuninni, en hann segir ljóst að þau þurfi að koma upp rannsóknarstofu til skimunar sambærilegri þeirri sem Íslensk erfðagreining hefur á sínum snærum. Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, hefur þó sagt að veirufræðideildin sé ekki í stakk búin til að taka við landamæraskimun fyrr en í lok ágúst. 

Spurð út í hvernig brúa eigi bilið frá því að ÍE hættir skimun og þar til veirufræðideildin getur tekið við segir Katrín að fundað verði með sérfræðingum á morgun og að vonandi skýrist málin þá. 

„Það hefur legið fyrir frá upphafi að Íslensk erfðagreining lítur ekki á þetta sem verkefni til langs tíma. Þau hafa auðvitað mjög mörgum verkefnum að sinna. Þess vegna tel ég að það sé alveg rétt að við þurfum að byggja upp þessa getu hjá okkar innviðum. Þau hafa alltaf verið mjög skýr með það að þetta gæti ekki verið til eilífðar. Þau hafa verið gríðarlega mikilvæg og þeirra framlag er ómetanlegt af því að þau hafa verið bara okkar ráðgjafar í öllu þessu verkefni,“ segir Katrín.

mbl.is