Norðmenn sleppa en Íslendingar ekki

Norðmenn geta von bráðar skroppið í helgarferð til Danmerkur, en …
Norðmenn geta von bráðar skroppið í helgarferð til Danmerkur, en Íslendingar þurfa eftir sem áður að sýna fram á minnst sex nátta gistingu. AFP

Danska ríkisstjórnin hefur veitt Norðmönnum undanþágu frá umdeildri kröfu um að ferðamenn sem komi til Danmerkur þurfi að gista þar í landi í sex nætur hið minnsta.

„Það verður ekki lengur gerð krafa um að norskir ferðamenn gisti í sex nætur til að fá leyfi til að ferðast yfir landamærin,“ hefur fréttaveitan Ritzau eftir Nick Hækkerup, dómsmálaráðherra Danmerkur. Ekki liggur fyrir hvenær breytingin tekur gildi, en í viðtalinu, sem tekið var fyrir helgi, segir ráðherrann að markmiðið sé að reglurnar taki gildi sem fyrst.

Sex nátta reglan svokallaða var gefin út í aðdraganda opnunar landamæra Danmerkur, sem hefur hingað til verið í tveimur skrefum: 
Frá 15. júní hafa ferðamenn frá Noregi, Íslandi og Þýskalandi mátt koma til landsins.
Frá 1. júlí hafa ferðamenn frá öllum Evrópusambands- og Schengenríkjum mátt ferðast þangað, að Svíum og Portúgölum undanskildum.

Þrátt fyrir að Ísland hafi verið í hópi þeirra þriggja ríkja sem fyrst fengu aðgang að danskri grundu fá Íslendingar ekki sömu undanþágu frá sex nátta reglunni og Norðmenn. Þetta staðfestir María Mjöll Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins. Enn ber Íslendingum að sýna fram á það við komuna til Danmerkur að þeir hafi tryggða gistingu í sex nætur, nema þeir falli undir sérstök undanþáguákvæði sem lesa má nánar um hér.

AFP

Spjótin standa á ríkisstjórninni

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem dönsk stjórnvöld draga í land með áður boðaðar sóttvarnareglur, en upphaflega stóð til að öllum ferðamönnum, sem kæmu í sumar, yrði bannað að gista í höfuðborginni Kaupmannahöfn. Sú regla var síðar dregin til baka áður en hún kom til framkvæmda.

Sex nátta reglan hefur mætt töluverðri gagnrýni, bæði frá hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu og almenningi sem telur reglurnar óskýrar og síbreytilegar. Þannig var reglunni tímabundið breytt í fimm daga reglu í fyrstu vikunni, auk þess sem ýmsum undanþágum fyrir t.a.m. námsmenn og skyldmenni Dana hefur verið komið upp. Borgaryfirvöld í Kaupmannahöfn eru meðal þeirra sem hafa barist fyrir því að samflokksmenn þeirra, Sósíaldemókratarnir í stjórnarráðinu, afnemi regluna alfarið

mbl.is

Bloggað um fréttina