Orrustan unnin en stríðið heldur áfram

Hörður Guðmundsson, eigandi flugfélagsins Ernis.
Hörður Guðmundsson, eigandi flugfélagsins Ernis. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, er að vonum ánægður með þær málalyktir að fallið hafi verið frá fyrri tillögum um að fjarlægja flugskýli félagsins á Reykjavíkurflugvelli til að rýma fyrir vegi.

Herði hafði verið tilkynnt á fundi með borgaryfirvöldum 30. apríl að flugskýlið skyldi víkja í nýju deiliskipulagi svæðisins, en um mánuði síðar var dregið í land og sagði formaður skipulags- og samgönguráðs að komið hefði í ljós að þau drög gengju ekki. Þetta varð svo endanlega ljóst þegar deiliskipulagið var samþykkt í borgarráði á fimmtudag.

„Við teljum orrustuna unna en stríðið heldur áfram,“ segir Hörður og vísar til baráttu flugvallarvina við borgaryfirvöld, sem hann segir haldna „áráttuhegðun varðandi allt sem snýr að þessum flugvelli“.

Skýlið sem um ræðir er viðgerðaskýli Ernis og því fyrirtækinu mikilvægt. „Það er algjört grundvallaratriði að hafa þetta,“ segir Hörður, enda fáist engin leyfi til að byggja annað skýli í staðinn eða „gera nokkurn skapaðan hlut á vellinum“.

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Ná að þreyja þrátt fyrir faraldur

Róðurinn hefur verið þungur í flugbransanum síðustu mánuði vegna heimsfaraldursins, en Hörður segir að reksturinn hafi gengið þokkalega miðað við aðstæður. Allir farþegaflutningar lágu niðri þegar verst lét, en það sem hélt fyrirtækinu gangandi var að tækifæri opnuðust til að fljúga með áhafnir skipa milli landa og flaug félagið meðal annars til Færeyja, Grænlands og Spánar í þeim erindagjörðum.

„Áhafnir hafa alltaf verið snar þáttur hjá okkur og svo förum við töluvert með sjúklinga sem eru að fara í líffæraskipti,“ segir Hörður. Sjúkraflugið hafi ekkert dregist saman í faraldrinum.

Hörður segir að bókanir erlendra ferðamanna séu aðeins teknar að glæðast. Vikulega sé flogið með þýska hópa í sjóstangaveiði á Vesturlandi, og hestamannahópar frá Frakklandi og Þýskalandi fljúgi til Húsavíkur.

Til að hvetja Íslendinga til að fljúga innanlands ákvað félagið að bjóða Íslendingum 50% afslátt af flugmiðum í allt sumar, í tilefni 50 ára afmælis félagsins. „Íslendingurinn flýgur yfirleitt lítið [innanlands] yfir sumarið. Á veturna þegar vegir lokast og veður er vont flýgur fólk, en á sumrin keyrir það frekar.“ Með afslættinum hafi þó tekist að lokka fólk í flugið og bæta sætanýtinguna; fullar vélar fljúgi dag eftir dag.

„Við þreyjum þetta allt saman þótt ástandið sé furðulegt. Við höfum getað haldið dampi þótt það sé enginn gróði,“ segir Hörður. „En það er nú sjaldnast í flugi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert