„Reynum að átta okkur á því hvað þetta þýðir“

Skimun hjá ÍE. Mynd úr safni.
Skimun hjá ÍE. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum bara aðeins að melta þessar upplýsingar og átta okkur á því hverju þetta breytir. Við erum bara að reyna að finna út úr því hver okkar næstu skref verða,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, um þá ákvörðun Íslenskrar erfðagreiningar að láta af skimun fyrir kórónuveirunni. 

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis.
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis. Ljósmynd/Aðsend

Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, sendi í dag Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra bréf þar sem hann til­kynnti henni að þætti Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar í skimun á kór­ónu­veirunni væri lokið eft­ir 13. júlí. 

Kjartan segir að verið sé að fara yfir stöðu mála. Stórt verkefni sé fram undan. 

„Það er erfitt að standa í svona vinnu án aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar. Við höfum sagt það áður og það er ekkert breytt. Nú leggjumst við bara yfir þetta og reynum að skoða hvernig við getum tekist á við þessa breyttu mynd. Við erum bara að reyna að átta okkur á því hvað þetta þýðir. Við reynum að átta okkur á þessu og förum yfir þetta í rólegheitum en það er ljóst að þetta verður hörkuáskorun,“ segir Kjartan. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir leiðinlegt að samstarfið endi svona og ber Íslenskri erfðagreiningu vel söguna. 

„Það samstarf sem við hjá landlækni og sóttvarnalækni höfum átt við Íslenska erfðagreiningu hefur verið algjörlega frábært. Að vinna með þessu flotta fólki hjá Kára hafa verið mikil forréttindi. Það er leiðinlegt að þetta fari svona en við þurfum bara að horfast í augu við það og bretta upp ermar. Það fer mikil vinna í hönd núna.“

mbl.is