Ríkissjóður geti tapað fjármunum vegna ferðalána

Erlendir ferðamenn í fjörunni við Jökulsárlón.
Erlendir ferðamenn í fjörunni við Jökulsárlón. mbl.is/RAX

„Við höfum ekki lagt mat á hversu stór hluti krafnanna kann að tapast. Það má hins vegar búast við því að það tapist einhverjir peningar,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri, spurður um svokallaðan ferðaábyrgðasjóð.

Ferðamálastofu hefur verið falið að reka sjóðinn, en úr honum eiga ferðaskrifstofur að geta sótt um lán til að endurgreiða viðskiptavinum pakkaferðir sem niður féllu af óviðráðanlegum aðstæðum. Eiga endurgreiðslurnar við fyrir ferðir sem áætlaðar voru á tímabilinu 12. mars til 31. júlí en fella þurfti niður vegna faraldurs.

Verði heimild sjóðsins nýtt til fulls er ráðgert að umfang lánanna verði um 4,5 milljarðar króna. Að sögn Skarphéðins ná lögin til 15-20 þúsund ferða, en engin veð liggja að baki lánunum. Verði ferðaskrifstofur, er nýtt hafa úrræðið, gjaldþrota á ferðaábyrgðasjóður kröfu í tryggingar fyrirtækjanna. Ljóst er að þrátt fyrir það kunna fjármunir að tapast enda stendur ferðaþjónustan hér á landi nú höllum fæti.

„Ferðaþjónustan stendur mjög illa þannig að það má búast við að eitthvað tapist. Það verður þó haft eftirlit með því að lánið skili sér til neytenda, til að tryggt sé að það verði ekki notað í eitthvað annað,“ segir Skarphéðinn í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert