Stærsti hjólreiðaviðburður ársins

Frá KIA Gullhringnum á síðasta ári.
Frá KIA Gullhringnum á síðasta ári. Ljósmynd/Aðsend

Stærsti hjólreiðaviðburður ársins, KIA gullhringurinn, fer fram um helgina á Laugarvatni. Keppendur eru sérstaklega hvattir til að nýta ferðagjöfina og njóta þess sem Laugarvatn hefur upp á að bjóða. 

Keppnin er haldin ár hvert og hjólað er um margar af þekktustu náttúruperlum Íslands sem og ýmsum söguslóðum, meðal annars Skálholt, Bræðratungu og Þingvelli. 

Hægt er að velja sér vegalengd eftir getu hvers og eins úr þremur mismunandi keppnisstigum. Í ár er einnig keppt í flokki rafmagnshjóla í fyrsta sinn, en það hefur ekki verið gert áður í hjólreiðakeppni á Íslandi eftir því sem fram kemur í tilkynningu. 

Það sem gerir keppnina í ár frábrugðna keppnum síðustu ára er að umferð um uppsveitir Árnessýslu verður væntanlega í lágmarki á laugardagskvöld þegar keppnin er ræst. Stórar rútur og umferð tengd ferðaþjónustu verður líklega minniháttar og tímabundnar lokanir gera brautina öruggari en nokkru sinni fyrr. 

Þá hafa skipuleggjendur hvatt keppendur til að koma með fjölskyldur sínar og nýta sér ferðagjöf stjórnvalda til að gista við Laugarvatn og nágrenni og njóta þeirrar afþreygingar sem þar er að finna. 

mbl.is