13 milljónir sem aldrei fundust

Gullsmíðaverslunin er staðsett á Laugarvegi.
Gullsmíðaverslunin er staðsett á Laugarvegi.

Skartgripir að andvirði ríflega 13 milljóna króna, sem stolið var fyrir um hálfu ári úr Gullsmíðaverslun Hjálmars Torfasonar, eru enn ófundnir. Ýmsar vangaveltur eru uppi en vinna við rannsókn málsins stendur enn yfir. Þetta segir Torfi Rafn Hjálmarsson, eigandi verslunarinnar. 

Að hans sögn var talsverður fjöldi dýrra skartgripa meðal þess sem var tekið. Þar á meðal voru hringar, hálsmen og armbönd. Útsöluverðmæti gripanna er líkt og fyrr segir um 13 milljónir króna. Að sögn Torfa hefur lítið heyrst af rannsókn málsins. Hún eigi þó að vera á lokametrunum. 

„Gripirnir hafa ekki fundist og ég veit í raun ekki hvar málið stendur nákvæmlega. Mér skilst að það sé verið að leggja lokahönd á það, en það tafðist eitthvað út af faraldrinum. Ég læt lögregluna alfarið um rannsóknina,“ segir Torfi sem kveðst aðspurður gruna ákveðinn aðila. 

Ákveðinn aðili ansi grunsamlegur

Er þar um að ræða mann sem handtekinn var strax í kjölfar ránsins. Var hann grunaður um aðild að innbrotinu. Þýfið hefur þó aldrei fundist. „Mér finnst maðurinn sem var í haldi ansi grunsamlegur. En aftur, þá hef ég ekki komið að neinum rannsóknum. Ég geri ráð fyrir að lögreglan sé með þetta. Þessi aðili var hins vegar handtekinn og fór í gæsluvarðhald,“ segir Torfi. 

Torfi kveðst enga hugmynd hafa um hvar þýfið kunni að vera niðurkomið. Þá hafi hann ekki sótt tryggingar vegna málsins. „Það á eftir að koma í ljós hvort ég fæ þetta bætt. Ég er tryggður en er ekki enn farinn að tala við tryggingafélagið. Ég geri það ekki fyrr en rannsókn málsins er lokið,“ segir Torfi.

mbl.is