„Algjört skilyrði“ að allir yrðu skimaðir

Þegar sóttvarnaráð fundaði síðast, 4. maí síðastliðinn, var það að allir sem kæmu til landsins yrðu skimaðir fyrir kórónuveirunni sett fram sem „algjört skilyrði“ fyrir opnun landsins, að sögn Vilhjálms Ara Arasonar, læknis sem situr í sóttvarnaráði fyrir hönd Læknafélags Íslands.

Vegna ákvörðunar Íslenskrar erfðagreiningar, sem hefur séð um að greina sýnin sem koma úr landamæraskimun, um að hætta að greina sýni eru þær forsendur brostnar, að sögn Vilhjálms sem vill að ráðið verði kallað saman og heilbrigðisráðherra ráðfæri sig við það um næstu skref. 

Síðast þegar ráðið, sem skipað er fulltrúum heilbrigðisstétta, kom saman var mikill þrýstingur frá stjórnvöldum um að opna landið vegna efnahagsþrenginga að sögn Vilhjálms sem segir að þá hafi skimun á landamærunum verið rædd sem skilyrði. 

„Þegar við í ráðinu töluðum saman síðast var það að hægt væri að skima alla algjört skilyrði fyrir opnun landsins. Nú er þetta [samstarfið við Íslenska erfðagreiningu] brostið og vonandi verðum við kölluð til fundar til þess að ræða stöðuna en þetta er algjörlega ný staða,“ segir Vilhjálmur. 

Óska lítillar ráðgjafar frá grasrótinni

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ekki fundað með ráðinu síðan faraldurinn tók að breiðast út, að sögn Vilhjálms, en sóttvarnaráð er skipað af ráðherra, henni og sóttvarnayfirvöldum til ráðgjafar. Sóttvarnaráð er eina ráðið sem er sóttvarnayfirvöldum til ráðgjafar. 

„Það hefur ekki verið óskað eftir mikilli ráðgjöf frá baklandinu og grasrótinni,“ segir Vilhjálmur sem bendir á að mismunandi sjónarmið hafi komið fram frá smitsjúkdómalæknum og öðrum sem starfa innan heilbrigðiskerfisins.

„Þetta er bara spurning um það hver gefur ráðherra ráðin. Ég er ekki að gagnrýna þá sem gera það nú heldur samráðsleysið.“

Vilhjálmur Ari Arason situr í sóttvarnaráði.
Vilhjálmur Ari Arason situr í sóttvarnaráði. mbl.is/Sigurður Bogi

Ráðherra hafi ekki samráð við sitt eigið ráð

Vilhjálmur segir mikilvægt að heilbrigðisráðherra og sóttvarnayfirvöld hlusti á fleiri sjónarmið og vettvangur ráðsins sé kjörinn fyrir slíkt. 

„Aðallega svo við séum samstillt og það sé samráð haft við okkur. Ráðherra hefur sagt það sjáf að hún hafi samráð við alla mögulega en hún er ekki með samráð við sitt eigið ráð. Það er það sem mér finnst svo skrýtið. Maður veit ekki alveg hvar maður situr í þessu ráði lengur.“

Vilhjálmur er læknir á slysa- og bráðamóttöku. Spurður hvort hann finni fyrir skorti á samráði heilbrigðisráðherra og sóttvarnayfirvalda þar hvað varðar viðbrögð við kórónuveirunni segir Vilhjálmur:

„Maður fylgist með fréttum þar sem nýjar vendingar koma upp á hverjum degi. Síðast um sóttkví, að starfsfólk megi ekki fara til útlanda nema fara í sóttkví í tvær vikur og geti ekki komið á spítalann eða til vinnu. Þetta skiptir okkur starfsfólk náttúrulega máli að heyra svona. Það er svolítið misvísandi hvort við eigum að nota maska og hversu mikilvægir þeir séu. Það eru margir þættir sem skipta starfsmenn miklu máli og starfsöryggi spítalans.“

Vilhjálmur nefnir að kæruleysi sé komið í landann gagnvart veirunni og alls ekki sé nóg um varúðarráðstafanir í dreifbýli. Þannig hafi ekkert verið gert varðandi mönnun og og annan aðbúnað í dreifbýli.

„Ég hef unnið í dreifbýli og mér er umhugað um öryggi dreifbýlisins. Þar hafa engar ráðstafanir verið gerðar frá upphafi faraldurs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert