Gleðst en hefur áhyggjur af aðferðinni

Kári Stefánsson á fræðslufundi um veiruna í lok maí. Íslensk …
Kári Stefánsson á fræðslufundi um veiruna í lok maí. Íslensk erfðagreining hefur unnið mikið starf í veirunni, en nú er skimunin komin í hendur Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gleðst að eigin sögn af heilum hug yfir þeirri niðurstöðu sem stjórnvöld hafa komist að um að Landspítalinn hefji að annast greiningu á sýnum úr landamæraskimun á þriðjudaginn eftir viku.

Hann hefur þó áhyggjur af þeirri aðferð sem stendur til að nota, sem sagt að greina saman sýni úr tíu einstaklingum í knippi til að flýta fyrir úrvinnslunni. Þær áhyggjur byggir hann á því að þegar er aðalveikleiki PCR-prófanna næmið og að enn bætist á þann vanda þegar sýnin eru orðin tíu í einu. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur einnig sagt þetta síðri kost en núverandi fyrirkomulag, en þó gerlegt. Páll Matthíasson forstjóri Landspítala telur þetta þá öruggt.

Áhætta í öllu sem maður gerir

„Ég er mjög ánægður með þetta. Þetta er komið á sinn stað og ég vona að þeim gangi vel. Ég hef fulla trú á að þeir geti þetta,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Það kom flatt upp á stjórnvöld sem og stjórnendur Landspítalans þegar Kári tilkynnti að ÍE væri að draga sig úr skimuninni í eitt skipti fyrir öll, en hann hafði þó gert þeim viðvart fyrirfram. Þetta fólk er þó einróma um að það hafi gert ráð fyrir meiri tíma til að undirbúa yfirtöku hins opinbera á framkvæmdinni.

„Ég fagna því að þau treysti sér til að setja þetta upp á Landspítalanum, enda hefði annað verið vitleysa. Ég reikna með að þetta gangi upp eins og í sögu og ég er mjög kátur að heyra þetta. Það felst ákveðin áhætta í þessari neyðaraðferð, að blanda saman sýnum úr tíu einstaklingum, en maður tekur áhættu raunverulega í öllu sem maður gerir og ég reikna fastlega með því að þau hafi ígrundað þetta vandlega,“ segir Kári.

Kári sagði við mbl.is í gær: „Við erum að skoða …
Kári sagði við mbl.is í gær: „Við erum að skoða alla sjúk­dóma á milli him­ins og jarðar. Ég þarf að setj­ast núna niður og fara að skoða hand­rit að grein sem fjall­ar um arf­genga til­hneig­ingu til þess að vera með mjög háa blóðfitu. Við þurf­um að ljúka henni og við þurf­um að ljúka alls kon­ar grein­um.“ Morgunblaðið/Júlíus Sigurjónsson

Kári segir nú að Íslensk erfðagreining geti snúið sér að skylduverkunum. Hann svarar neitandi þegar hann er spurður hvort það hafi verið eigendur fyrirtækisins sem þrýstu á um að ÍE drægi sig úr úr skimunum. 

„Þrýstingurinn til að draga okkur úr þessu kemur frá okkur. Hann kemur frá því við þurfum að halda áfram að sinna þeim verkefnum sem við erum ráðin til og því starfi sem býr til okkar tilvist,“ segir Kári.

mbl.is