Hafa fengið greidd laun í sóttkví

Lögreglumenn hafa fengið greidd laun þrátt fyrir sóttkví.
Lögreglumenn hafa fengið greidd laun þrátt fyrir sóttkví. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er ekki komið formlega inn á borð til okkar. Það er hins vegar svo að við förum eftir leiðbeiningum Kjara- og mannauðssýslu ríkisins,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Vísar hún þar til til­kynn­ingar frá BSRB þar sem fram kemur að lög­reglu­menn sem þurftu að fara í sótt­kví vegna af­skipta af ein­stak­ling­um sem grun­ur lék á að væru með COVID-19 hefðu ekki rétt til greiðslna meðan á sóttkví stóð. 

Í tilkynningu BSRB, sem send var á alla lögreglustjóra, segir enn fremur að þess sé krafist að greitt sé fyrir störf þeirra meðan á sóttkví stendur, auk þess sem vaktafrí frestist. Að sögn Höllu eru laun lögreglumanna í sóttkví greidd líkt og um veikindaleyfi sé að ræða. „Þeir fá greitt eins og þetta sé veikindaleyfi. Þannig eru meðaltalslaun greidd út,“ segir Halla. 

Segir Halla að farið hafi verið eftir leiðbeiningum frá Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Farið verði þó ítarlegra ofan í saumana á málinu á næstu dögum. „Eftir því sem ég best veit hafa þeir fengið greitt og við höfum farið eftir leiðbeiningum sem okkur hafa verið veittar. Ég er ekki alveg viss hvað býr að baki tilkynningunni,“ segir Halla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert