Landspítalinn sér um þetta

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir að sýkla- og veirufræðideild muni …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segir að sýkla- og veirufræðideild muni ráða við skimun á landamærunum frá og með þriðjudeginum í næstu viku. mbl.is/Eggert

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að sýkla- og veirufræðideild spítalans geti tekið við skimun ferðamanna á landamærunum næsta þriðjudag. Það verði erfitt, en það sé hægt, og það verði gert.

„Fram að þessu hefur þetta ekki verið okkar forgangsverkefni. Skimunin hefur ekki verið okkar hlutverk. Það hefur breyst núna og það er orðið okkar hlutverk. Og það verður býsna erfitt en það er eitthvað sem við ætlum að láta takast,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

Páll fundaði við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í dag og niðurstaðan er þessi. Katrín í samtali við mbl.is: „Þau munu bara taka við þessum bolta.“ Ítarlegra viðtal við hana má lesa hér.

„Hefðum kosið að hafa meiri frest“

Páll segir að það hafi komið flatt upp á fólk, bæði stjórnvöld og sjúkrahús, þegar Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar tilkynnti um það í gær að Íslensk erfðagreining væri hætt að sjá um skimunina frá og með þriðjudeginum 14. júlí.

„Það gerði það og það kannski skýrir fyrstu viðbrögð okkar en eftir að ég hef fundað með stjórnvöldum er ljóst hvert verkefnið er. Við hefðum kosið að hafa meiri frest en lífið er ekki alltaf eins og maður kýs,“ segir Páll.

Páll heldur því staðfastlega fram að Landspítali sé í stakk búinn til að takast á við verkefnið þegar ÍE hættir því. Það rennir stoðum undir yfirlýsingar Kára í gær, sem sagði að hið opinbera væri fært um að koma sér upp aðstöðu til að sjá um skimunina.

Kári Stefánsson tilkynnti í gær að aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að …
Kári Stefánsson tilkynnti í gær að aðkomu Íslenskrar erfðagreiningar að skimunum við landamæri landsins væri lokið frá og með 14. júlí. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tíu sýni greind saman í einu

Starfsemin verður í húsnæði Landspítalans í Ármúla 1, þar sem veirufræðideild sjúkrahússins greinir þegar sýni úr fólki sem grunur leikur á um að sé með veiruna. Breytingin verður sú að nú verða að auki greind þar sýnin sem tekin eru af fólki við landamærin. Til þess að unnt sé að gera það, verða tíu sýni greind saman í einu, sem nærri tífaldar greiningargetuna. 

Þá er tíu sýnum skellt saman inn í vél og ef í þeim greinist kórónuveira eru þau öll tekin aftur og greind hvert fyrir sig. Þessu fylgir hins vegar verulega aukin handavinna, en Páll segir að þetta sé öruggt.

„Þegar þetta var upphaflega skoðað voru áhyggjur af því að þetta væri ekki nógu trygg aðferð. Að það væri hætta á að það gætu ekki fundist smit sem væru í einstökum sýnum. En þetta er ný veira og þekkingin á henni eykst gríðarhratt og nú eru komnar betri upplýsingar um að það sé vel hægt að nota samsöfnuð sýni. Það bendir jafnvel margt til þess að hægt sé að greina þrjátíu sýni í einu, en við ætlum ekki að ganga svo langt,“ segir Páll.

Sérfræðingar ráðnir frá Íslenskri erfðagreiningu

Landspítalinn hefur á undanförnum vikum ráðið í vinnu 18 starfsmenn til að sinna rannsóknarstofuvinnu. Þeir starfsmenn hafa verið staðsettir hjá Íslenskri erfðagreiningu og aðstoðað við að greina sýnin á meðan fyrirtækið hafði það með höndum, þó að þeir hafi verið á launaskrá hjá sjúkrahúsinu. Eru þetta aðallega lífeindafræðingar og náttúrufræðingar í framhaldsnámi. Munu þeir flytjast yfir á veirurannsóknastofu spítalans.

Hér verður unnið úr sýnunum.
Hér verður unnið úr sýnunum.

Nú fer í hönd undirbúningur að því að geta greint öll 2.000-3.000 daglegu sýnin í Ármúla. Páll segir að það þurfi að þróa mjög flókna verkferla til að hægt sé að greina 10 sýni í einu, en að það sé raunhæft að hægt verði að koma þeim í kring í tæka tíð.

„Við höfum getað mætt þörf fyrir mat á sýnum þar sem grunur er um smit, en það eru 200-300 sýni á dag og svo í viðbót geta til að meta um það bil 200 sýni enn. Með nýju fyrirkomulagi má segja að við náum afkastagetu upp á 2-3.000 sýni á dag, þannig að við getum sinnt bæði því sem við sinntum þegar og því sem nú bætist við. En það er mjög mannaflafrekt að blanda saman sýnunum á þennan hátt og eitt af stóru verkefnunum næstu daga er að kortleggja framkvæmdina á því,“ segir Páll.

Verið er að brjóta veggi og búa til meira pláss í Ármúla. Framkvæmdir standa yfir út vikuna. Þá er búið að koma fyrir pípettutæki sem fækkar handtökum við framkvæmdina verulega og síðan er von á fleiri einangrunartækjum í ágústbyrjun. Þá fæst stærra tæki sem skiptir miklu máli í ferlinu í síðasta lagi í október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert