Segir Kára hafa verið skýran í sínum svörum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefði verið skýr í sínum svörum um þann möguleika að halda skimun fyrir kórónuveirunni áfram. 

Kári hefur sagt að hann sjái enga ástæðu til að endurskoða ákvörðun sína. 

Þórólfur sagði á fundinum í dag að hugsanlega væri hægt að auka greiningargetu Landspítalans með því að rannsaka tíu sýni í einu. Það sé þó verri kostur en sú leið sem farin hefur verið hingað til, enda sé slík greining hugsanlega ekki jafn næm og greining þar sem hvert sýni er rannsakað fyrir sig. 

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á fundinum að viðbúið hefði verið að einhvern tímann kæmi upp sú staða að afkastageta skimunar yrði ekki jafn mikil og spurn eftir því að koma með flugi til landsins. Nú sé 1.950 manna hámark á komu farþega um Keflavíkurflugvöll til landsins, en það getur breyst með hliðsjón af þeirri reynslu sem hefur fengist. 

Þórólfur sagði á fundinum að ef fleiri þjóðir en Grænlendingar og Færeyingar yrðu undanskildar skimun væri það til þess fallið að létta á þrýstingi á landamæraskimun. Enn liggur ekki fyrir hvort veirufræðideild Landspítalans anni fleiri sýnum á dag en 500. Ef það verður ekki hægt verða sóttvarnayfirvöldum settar ákveðnar skorður. 

Þórólfur segist vilja halda öllu opnu og kveðst ekki vilja hætta skimun við landamærin, en Íslensk erfðagreining tilkynnti það óvænt í gær að þætti fyrirtækisins í skimun á kórónuveirunni væri lokið eftir 13. júlí. Þá sagði Þórólfur það nauðsynlegt að íslenskir ferðamenn fari í aðra sýnatöku nokkrum dögum eftir komuna til landsins, sérstaklega þeir sem hafa stórt tengslanet. 

mbl.is