Tafir á umferð vegna framkvæmda

Frá malbikunarframkvæmdum á Kjalarnesi í gær.
Frá malbikunarframkvæmdum á Kjalarnesi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnið er að malbikun á Vesturlandsvegi rétt norðan Grundarhverfis og búast má við umferðartöfum í dag líkt og í gær. 

Þrengt verður um eina akrein og umferð handstýrt. Áætlað er að framkvæmdirnar standi frá kl. 08:30 til kl. 23:00 en í gær voru mjög miklar tafir á umferð og þurfti fólk að bíða töluvert lengi eftir því að komast áfram, bæði við Hvalfjarðargöngin sem og við Grundarhverfi. 

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að malbikið sem nú er verið að endurleggja á kafla Vesturlandsvegar á Kjalarnesi er eins og til er ætlast, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Sömu sögu er að segja um mælingar á viðnámi kafla sem endurnýjaður var á Gullinbrú sl. fimmtudag.

Framkvæmdir við að leggja nýtt malbik á Vesturlandsveg á milli Grundarhverfis á Kjalarnesi og Hvalfjarðarganga hófust í gær. Lagt var á akreinina sem liggur norður að göngum og var búist við að verkið stæði fram á kvöld. Í dag verður lagt á akreinina sem notuð er til aksturs í suður og á því verki að ljúka í kvöld. 

Ástæða þess að nýlagt malbik var fræst upp og nýtt lagt yfir er að fyrra yfirborð stóðst ekki kröfur um viðnám. Það sýndu mælingar Vegagerðarinnar sem gerðar voru eftir að þar varð alvarlegt slys á sunnudaginn fyrir rúmri viku. Tveir létust og einn var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi vegna meiðsla.

Skýringar hafa ekki fengist á ástæðum þess að slitlagið varð hálla en til var ætlast en ljóst að veðuraðstæður hjálpuðu ekki til. Sýni voru tekin fyrir helgi og verða þau send til rannsóknar til Svíþjóðar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í vikunni. Sólveig Gísladóttir, sérfræðingur hjá samskiptadeild Vegagerðarinnar, á von á því að fyrstu niðurstöður berist í þessari eða næstu viku en niðurstöður úr sérhæfðari rannsóknum berist þó ekki fyrr en síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert