„Þau munu bara taka við þessum bolta“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að Landspítalinn geti tekið við landamæraskimuninni …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að Landspítalinn geti tekið við landamæraskimuninni næsta þriðjudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur trú á að Landspítalinn geti tekið við greiningu á sýnum úr skimun við landamæri landsins næsta þriðjudag. Eftir fund við forstjóra sjúkrahússins, Pál Matthíasson, er niðurstaðan sú að sýkla- og veirufræðideildin taki einfaldlega við verkefninu, eins og þegar var stefnt að. Það gerist einfaldlega fyrr.

„Ég átti fund með Páli í dag og óskaði eftir því að það yrði skoðað af þeirra hálfu að flýta sínum áætlunum um að sýkla- og veirufræðideildin tæki við þessu, þannig að þetta gæti bara gengið áfram snurðulaust. Hann ætlar að gera sitt besta þannig að það verði hægt. Þannig að þau munu bara taka við þessum bolta,“ segir hún.

Hefur þú trú á að þetta gangi upp?

„Já. Það er auðvitað þannig að okkar áætlanir miðuðu við að það væri meiri tími til stefnu en við munum gera okkar til að þetta geti allt saman ganga upp. Auðvitað mun koma inn í þetta líka skimun í Færeyjum gagnvart Norrænu, sem léttir aðeins á.“ 

Heiðursmannasamkomulag

Kári Stef­áns­son, for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, til­kynnti um það í gær að Íslensk erfðagrein­ing væri hætt að sjá um skimun­ina frá og með þriðju­deg­in­um 14. júlí. Það hafði fyrirtækið gert um fjögurra mánaða skeið, en eins og komið hefur fram var samkomulag stjórnvalda við Íslenska erfðagreiningu um að annast framkvæmdina aðeins munnlegt.

„Þetta var í raun og veru munnlegt samkomulag og það er eitthvað sem sóttvarnalæknir getur betur útskýrt,“ segir Katrín. „Íslensk erfðagreining vildi ekki gera skriflegan samning og í raun og veru féllust stjórnvöld á það, enda væru verkefnin að taka breytingum frá degi til dags. Þannig að þetta var heiðursmannasamkomulag.“

Heiðursmannasamkomulagi má náttúrulega rifta þegar fólki sýnist, eins og Kári gerði, þó hafandi varað við fimm dögum fyrr. Aðspurð hvort henni þyki Kári Stefánsson hafa farið fram með ósanngjörnum hætti þegar hann tilkynnti þetta í gær segir Katrín: „Kári fer bara fram með sínum hætti. Ég bauð honum á fund til mín. Hann afþakkaði það. En það er bara alles Gutes.“

Ekki hægt að auka afköst í bráð

Afkastageta skimunarinnar hefur verið upp á um 2.000 sýni á dag undanfarið en vonir voru bundnar við að hægt væri að auka hana bráðlega. Á einum degi hefur 1.941 verið skimaður fyrir veirunni við landamærin og því er ljóst að miklu fleiri mega ferðamennirnir ekki verða. Að sögn Katrínar gerir þessi breyting núna það að verkum að ekki verði hægt að auka afköstin eins og stefnt var að, því að afkastageta Landspítala með nýrri aðferð verður ekki meiri en .2000—3.000 sýni, eins og Páll hefur sagt við mbl.is.

„Við erum ekki að sjá fyrir okkar að það verði hægt að auka þessi afköst í bráð. Við munum því meta stöðuna út júlí og tökum áfram reglulega stöðuna á þessu,“ segir Katrín.

Tækjabúnaðurinn ekki eins öflugur

Verkefnið sem færist nú yfir á Landspítala er að greina sýnin sem tekin eru við landamærin. Það verður gert í Ármúla 1, sem þarf nokkurra umbóta við til að vera ásættanlegt húsnæði til þessa umfangsmikla verks. Unnið er að því hörðum höndum.

„Það liggur fyrir að tækjabúnaðurinn þarna er ekki eins öflugur og hjá Íslenskri erfðagreiningu og að það þurfi meiri mannafla til að vinna þetta. Við vorum hins vegar búin að ákveða að byggja upp þessa aðstöðu, þannig að hún lá fyrir. Við töldum þó að við hefðum meiri tíma,“ segir Katrín.

mbl.is