„Algjörlega komin að sársaukamörkum“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir niðurstöður atkvæðagreiðslu Flugfreyjufélags Íslands mikil vonbrigði. Hann segir félagið ekki hafa meira svigrúm til þess að mæta kröfum FFÍ. 

Félagsmenn FFÍ felldu í dag nýjan kjarasamning við Icelandair sem samninganefndir beggja aðila skrifuðu undir hjá ríkissáttasemjara 25. júní síðastliðinn. 

„Þetta eru mikil vonbrigði. Báðir aðilar hafa lagt mikla vinnu í þessar samningaviðræður og báðir aðilar skrifa undir þessa samninga,“ segir Bogi í samtali við mbl.is. 

„Við fórum inn í viðræðurnar með það markmið að tryggja samkeppnishæfni félagsins og um leið að standa vörð um starfskjör flugfreyja og flugþjóna og tryggja að þetta verði áfram langeftirsóttasti vinnustaður þessarar starfsstéttar hér á Íslandi, tryggja að kjörin væru með þeim bestu sem gerast á okkar mörkuðum og það tókst með þessum samningum,“ segir Bogi. 

Ekkert svigrúm 

Bogi segir þá stöðu sem nú er uppi vera erfiða. 

„Við komumst því miður ekki lengra, ef tryggja á þessi markmið. Að ganga frá samningum á þessum nótum við flugfreyjur og flugþjóna var eitt af lykilatriðum í því að safna nýju hlutafé. Við þurfum að fara mjög vel yfir stöðuna núna,“ segir Bogi, en boðað hefur verið til fundar hjá ríkissáttasemjara á föstudag. 

„Við höfum ekkert svigrúm. Við erum algjörlega komin að sársaukamörkum í þeim samningum sem skrifað var undir og komumst því miður ekki lengra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina