Ástráður, Guðbjörg og Gylfi skipuð í gerðardóm í máli hjúkrunarfræðinga

Ástráður Har­alds­son, héraðsdómari og aðstoðar ríkissáttasemjari, var skipaður formaður gerðardómsins.
Ástráður Har­alds­son, héraðsdómari og aðstoðar ríkissáttasemjari, var skipaður formaður gerðardómsins. mbl.is/Styrmir Kári

Ríkissáttasemjari hefur skipað í gerðardóm í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins. Dóminn skipa þau Ástráður Haraldsson, héraðsdómari og aðstoðarríkissáttasemjari sem jafnframt er formaður, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og doktor í sálfræði og Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og doktor í heilsuhagfræði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkissáttasemjara.

Frá einum af samningafundum hjúkrunarfræðinga hjá ríkissáttasemjara í síðasta mánuði.
Frá einum af samningafundum hjúkrunarfræðinga hjá ríkissáttasemjara í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerðardómurinn er skipaður i samræmi við miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem var samþykkt af samningsaðilum 27. júní að lokinni atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga. Samningsaðilar náðu samkomulagi um öll meginatriði kjarasamnings utan afmarkaðra atriða launaliðs, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu.

Fram kemur í tilkynningunni að ágreiningurinn sé á milli samningsaðila snýst um það hvort laun hjúkrunarfræðinga hjá stofnunum ríkisins séu í samræmi við ábyrgð, álag, menntun og inntak starfa þeirra samanborið við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá ríkinu. Miðlunartillaga ríkissáttasemjara fól í sér að hann skipi gerðardóm til að fjalla um afmörkuð atriði launaliðs sem ágreiningur er um. Gerðardómur skal ljúka störfum sínum fyrir 1. september á þessu ári.

Gerðardómurinn er sjálfstæður í störfum sínum og ákvörðunum. Hann setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og getur krafist skýrslna, munnlegra og skriflegra af þeim sem hann telur nauðsynlegt. Aðilar eiga rétt á því að gera gerðardómi grein fyrir sjónarmiðum sínum og leggja fram gögn. Ríkissáttasemjari útvegar gerðardómi starfsaðstöðu í húsakynnum ríkissáttasemjara, Borgartúni 21, 105 Reykjavík.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari skipaði þremenningana í gerðardóminn.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari skipaði þremenningana í gerðardóminn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerðardómur skal við ákvarðanir sínar hafa hliðsjón af kjörum og launaþróun þeirra starfsstétta sem sambærilegar geta talist í menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og almennri þróun kjaramála hér á landi. Við mat sitt skal hann taka tillit til þeirra launahækkana sem hópurinn myndi fá eftir samþykkt miðlunartillögunnar og eftir atvikum aðgerða sem stofnanir kunna að grípa til í kjölfar hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert