Bjartir kaflar víða um land

Veðrið hefur leikið við höfuðborgarbúa undanfarna daga.
Veðrið hefur leikið við höfuðborgarbúa undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir vestan- og norðvestanátt, á bilinu 5-10 m/s, í dag og má búast við björtum köflum víða um land.

Búast má við stöku síðdegisskúrum á sunnanverðu landinu en annars er ekki útlit fyrir úrkomu. Hiti nokkuð víða á bilinu 13 til 18 stig yfir daginn, en svalara við ströndina þar sem vindur stendur beint af hafi að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á morgun verður vindur norðlægari og af svipuðum styrk. Þokkalega bjart veður sunnan- og vestanlands með hita 13 til 18 stig. Á Norður- og Austurlandi er hins vegar útlit fyrir dálitla rigningu og svalara veður, einungis er gert ráð fyrir 7 til 12 stiga hita á þeim slóðum að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin í dag og næstu daga

Vestan og norðvestan 5-10 m/s í dag og bjart með köflum en stöku síðdegisskúrir á sunnanverðu landinu. Hiti 10 til 18 stig.

Norðan 5-10 á morgun og bjart að mestu sunnan- og vestanlands, hiti 13 til 18 stig. Norðvestan 8-13 og dálítil rigning á Norður- og Austurlandi með hita 7 til 12 stig.

Á fimmtudag:
Norðvestan 5-10 m/s og bjart með köflum sunnan- og vestanlands, hiti 13 til 18 stig. Norðvestan 8-13 og dálítil rigning norðaustan til á landinu með hita 7 til 12 stig.

Á föstudag:
Vestan og norðvestan 5-10 m/s. Lítils háttar rigning norðaustanlands, skýjað og þurrt að kalla á vestanverðu landinu, en bjartviðri á Suðausturlandi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á laugardag:
Suðvestan 3-8 og skýjað en úrkomulítið á Suður- og Vesturlandi. Léttir víða til á Norður- og Austurlandi. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á sunnudag og mánudag:
Fremur hæg suðlæg eða breytileg átt. Skýjað að mestu á landinu og dálítil væta af og til í flestum landshlutum. Hiti 10 til 17 stig.

Á þriðjudag:
Snýst mögulega í norðanátt með skýjuðu og svölu veðri norðanlands, en stöku skúrum syðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert