Eignast íbúð fyrir þrítugt

Fáar konur með grunnmenntun eignast sína fyrstu eign einar.
Fáar konur með grunnmenntun eignast sína fyrstu eign einar. mbl.is/Sigurður Bogi

Hlutfall einstaklinga sem eignast sitt fyrsta íbúðarhúsnæði fer hækkandi frá 18 ára aldri og nær hámarki í kringum 27 og 28 ára aldur en fer þá aftur lækkandi ef skoðaður er aldurshópurinn á milli 18 og 34 ára. Árið 2019 var hlutfall þeirra sem eignuðust fyrstu íbúð á aldrinum 25-33 ára lægra en tvö árin á undan. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Á árunum 2017-2019 var hlutfall þeirra sem eignast fyrstu eign svipað eftir kyni. Ef hlutfallið er skoðað eftir aldri og kyni má sjá að það er hæst hjá konum á 27.-28. aldursári. Í því samhengi er áhugavert að benda á að meðalaldur kvenna sem eignast sitt fyrsta barn er um 28 ár og er því mögulegt að það tengist stofnun heimilis segir í frétt á vef Hagstofunnar.

Af þeim sem eignuðust sína fyrstu eign árið 2018 voru 72% sem eignuðust hana með öðrum en 28% sem stóðu ein að eigninni. Af þeim sem eignuðust sína fyrstu eign einir voru 61,2% karlar en 38,8% konur.

Fáar konur með grunnmenntun eignast sína fyrstu eign einar

Séu þeir sem eignuðust sína fyrstu fasteign árið 2018 skoðaðir út frá kyni og menntunarstigi á kaupdegi sést að 38,9% karla með grunnskólamenntun eignuðust fasteign einir en einungis 14,7% kvenna. Hlutfallið jafnast með hærra menntunarstigi þannig að 28% karla með háskólamenntun voru einir eigendur og 24,0% kvenna.

mbl.is