Ekki með nægilega sterk gögn til að kæra

Mál jeppakallanna endaði með tiltali lögreglu
Mál jeppakallanna endaði með tiltali lögreglu Ljósmynd/Bureko CZ

Lögreglan á Suðurlandi náði tali af hópi erlendra ökumanna sem var leitað í gær, þriðjudag. Hópurinn, sem kom til landsins með Norrænu, hafði varið nokkrum dögum í að keyra um landið á stórum jeppum. Hópurinn birti myndbönd af akstri sínum á Facebook og grunur liggur á að þeir hafi m.a. ekið utanvegar á ólöglegum svæðum.

Vísir greindi fyrst frá málinu.

Fjölnir Sæmundsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Hvolsvelli, sagði í samtali við mbl.is að hópurinn hafi verið í Reykjavík þegar lögregla náði í þá. „Það var rætt við þá og teknar niður upplýsingar um þá, en við getum ekki staðsett nákvæmlega hvar þeir voru,“ segir Fjölnir.

Hann segir að hópurinn hafi borið að sér sakir, en að lögreglan sé ekki með nægilega sterk gögn í höndunum til að geta kært þá. Erfitt sé að greina út frá myndum og myndböndum sem birt voru á Facebook hvort athæfi mannanna varði við lög. Þetta mál endaði þess vegna með tiltali og áminningar um hvaða reglur séu í gildi á Íslandi.

„Þetta mál fer ekki lengra í bili, en við erum með allar upplýsingar um þá og við vitum hvert þeir fara næst. Lögreglan fylgist með þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert