Flestir fá rúmlega milljón á mánuði

mbl.is/Eyþór Árnason

Flestir sveitarstjórnarfulltrúar fá laun á bilinu 50 til 99 þúsund krónur á mánuði fyrir setu í sveitarstjórn en næstflestir fá á bilinu 100 – 149 þúsund krónur á mánuði.

Algengt er að laun séu undir 50 þúsund krónum en ekki mjög algengt að þau séu yfir 200 þúsund krónum. Það kemur þó fyrir og í tveimur sveitarfélögum eru fulltrúar með yfir 400 þúsund krónur í laun á mánuði.

Þetta kemur fram í nýbirtri könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga. Er þetta tíunda könnunin sem gerð er á starfskjörum sveitarstjórnarfólks frá árinu 2002. Í könnuninni var spurt um laun á árinu 2019 og var rafrænn spurningalisti sendur öllum 72 sveitarfélögunum. Alls svöruðu 58 þeirra en þau svöruðu ekki öll öllum spurningum.

Algengustu laun á bilinu 1 - 1,7 milljónir

Algengast er að laun framkvæmdastjóra séu á bilinu 1.101 til 1.700 þúsund krónur á mánuði en í þeim launaflokki er 31 einstaklingur sem eru annaðhvort sveitarstjórar eða framkvæmdastjórar í þeim 56 sveitarfélögum sem tóku þátt í könnuninni.

Í ellefu sveitarfélögum voru laun þeirra á bilinu 1.501 til 1.700 þúsund krónur, í níu sveitarfélögum voru þau á bilinu 1.301 til 1.500 þúsund krónur og í ellefu voru þau á bilinu 1.101 til 1.300 þúsund krónur.

Starfstengdar greiðslur framkvæmdastjóra eða sveitarstjóra á mánuði voru flestar undir 50 þúsund krónum en algengt var að þær væru á bilinu 50 til 99 þúsund krónur. Greiðslur fóru yfir 250 þúsund krónur í einu tilviki.

Flestir eiga rétt á 6 mánaða biðlaunum

Réttur framkvæmdastjóra til biðlauna við starfslok er mismikill og er allt frá því að vera enginn upp í það að vera sex mánuðir. Flestir eiga rétt á 6 mánaða biðlaunum en næstflestir eiga rétt á þremur mánuðum.

Af þeim 57 sveitarfélögum sem svöruðu spurningum um endurgreiðslu kostnaðar, m.a. ferðakostnaðar vegna funda og annarra starfstengdra viðburða, greiða 49 sveitarfélög slíkan kostnað.

Í könnuninni kemur ekki fram hvaða sveitarfélög skiluðu hvaða svörum.
Í könnuninni kemur ekki fram hvaða sveitarfélög skiluðu hvaða svörum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is