Skiltinu á Steini stolið

Jóhann, Sigurjón og Gauti voru snöggir að setja upp nýtt …
Jóhann, Sigurjón og Gauti voru snöggir að setja upp nýtt skilti. Ljósmynd/Sigurjón Sigurbjörnsson

Í síðustu viku var skiltinu á Steini fyrir neðan Þverfellshorn á Esjunni stolið. Þar hafði það verið í um tuttugu ár eða síðan Jóhann Kristjánsson og félagar hans úr ÍR festu það á Stein fyrir tuttugu árum. 

Þegar Jóhann frétti af þessu beið hann ekki boðanna og lét smíða nýtt skilti sem hann festi á Stein í gær ásamt Sigurjóni Sigurbjörnssyni og Gauta Höskuldssyni. Allir þrír komu að uppsetningu skiltisins upphaflega.

„Hlutir fá ekkert að vera í friði, það er einhvern veginn ekkert heilagt lengur,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is.

Gauti, Jóhann og Sigurjón að lokinni uppsetningu.
Gauti, Jóhann og Sigurjón að lokinni uppsetningu. Ljósmynd/Sigurjón Sigurbjörnsson

Merktu Stein til að koma í veg fyrir svindl

Spurður út í það hvernig það kom til að hann hafi merkt Stein upphaflega segir Jóhann: 

„Þetta var þannig að fyrir einhverjum tuttugu árum síðan var hópur af ÍR-ingum að búa sig undir Laugavegshlaupið. Hluti af æfingaprógramminu var að hlaupa upp Esjuna og að ómerktum steini. Svo fóru félagar mínir sumir að hlaupa á óeðlilega góðum tíma upp að Steini og þá viðurkenndu þeir það að þeir hefðu hlaupið upp að öðrum steini. Þá ákváðum við, þessir heiðarlegu og samviskusömu, að merkja steininn og sögðum við þá að þetta væri Steinn.“

Nýja skiltið er ekki síðra en það gamla.
Nýja skiltið er ekki síðra en það gamla. Ljósmynd/Sigurjón Sigurbjörnsson

Menn höfðu það á orði eftir að nýja skiltið kom upp að þremenningarnir hefðu fest skiltið svo rækilega á Stein að ef óprúttnir aðilar ætluðu sér að ræna því þá yrðu þeir að taka Stein með. Spurður um það segir Jóhann: 

„Ég veit það nú ekki. Við reyndum aðeins að kjaga boltana þannig að það yrði erfiðara að koma með skiptilykil og stela skiltinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert