Vara við gasmengun við Múlakvísl

Við gömlu brúna yfir Eldvatn við Ása í Skaftárhlaupi haustið …
Við gömlu brúna yfir Eldvatn við Ása í Skaftárhlaupi haustið 2015. mbl.is/Sigurður Bogi

Rafleiðni í Múlakvísl hefur farið hægt vaxandi síðustu daga og er talið að jarðhitavatn undan Mýrdalsjökli sé að leka í ána. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Vegna jarðhita á ákveðnum svæðum undir jökli safnast vatn saman undir sigkötlum jökulsins en að lokum finnur vatnið sér leið þaðan og út í jökulárnar. Vatnið inniheldur uppleyst efni og gastegundir, sem gefa frá sér lykt og skýra rafleiðni vatnsins.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að þetta gerist nær undantekningarlaust á hverju sumri. „Þessu getur fylgt gasmengun og því sendum við út tilkynningu sem þessa.“ Bændur á svæðinu eru vanir lyktinni, sem þeir kalla jafnan jöklafýlu. Mest er gasmengunin við upptök árinnar, í Kötlujökli í austanverðum Mýrdalsjökli.

Þegar vatn safnast undir sigkötlunum getur það orðið til þess að jökulhlaup fari af stað, en þá tæmast sigkatlarnir á skömmum tíma, vatnsmagn árinnar eykst til muna og hún flæðir yfir bakka sína. Stórt hlaup varð til að mynda árið 2011 og hreif það með sér brúna.

Síðasta sumar jókst vatnsmagn undir sigkötlum töluvert og var búist við að það gæti framkallað sæmilegt jökulhlaup. Svo fór þó ekki og segir Einar að ekki sé endilega búist við jökulhlaupi í ár. Þess í stað sé búist við að vatn undan sigkötlum leki í ána hæft og rólega og auki þannig vatnsmagn hennar á viðráðanlegan hátt.

„Núna erum við með stöðugan leka af jarðhitavatni sem eykur lítillega vatnsmagn árinnar en hún hefur ekki farið yfir bakka sína. Þetta gæti staðið yfir í einhverjar vikur,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert