Veittist að barni og konu

Óskað var eftir skjótri aðstoð lögreglu að söluturni í Breiðholti síðdegis í gær en þar hafði karlmaður í mjög annarlegu ástandi veist að barni og konu. Í átökum við manninn náði hann að bíta tvo lögreglumenn og hrækja á þann þriðja. Maðurinn er vistaður í fangageymslu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjórir eru vistaðir í fangageymslu lögreglunnar.

Um kvöldmatarleytið var tilkynnt til lögreglu um slagsmál í miðborginni en þar slógust tveir menn. Annar þeirra var vopnaður staf og hinn flösku. Að sögn lögreglu var annar þeirra með minni háttar áverka.

Lögreglan fékk tilkynningu um umferðaróhapp í Garðabæ um klukkan 21 í gærkvöldi en þar hafði bifreið verið ekið aftan á aðra bifreið. Tjónvaldur stakk af en var handtekinn stuttu síðar, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann er vistaður í fangageymslu.

Margar tilkynningar og kvartanir bárust til lögreglu í gærkvöldi og nótt um fólk í annarlegu ástandi sem var samborgurum sínum til ama og leiðinda. Flestum vísað eða ekið í burtu. Flytja þurfti tvo á sjúkrahús vegna ástands.

Nokkrar tilkynningar bárust meðal annars vegna óláta í unglingum í Kópavogi og þurfti lögreglan að hafa afskipti af þeim.

Þrír ökumenn voru teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og tveir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is