Hafi ætlað að framleiða meira amfetamín

Fimm af hinum sex dæmdu voru handtekin við Hvalfjarðargöng en …
Fimm af hinum sex dæmdu voru handtekin við Hvalfjarðargöng en sexmenningarnir framleiddu fíkniefnin í sumarbústað í Borgarfirði. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Rannsóknarlögregleglumaður sem bar vitni fyrir dómi í Hvalfjarðagangamálinu svokallaða taldi að efnaklumpur sem vafinn var inn í koddaver í bifreið Jaroslövu Davíðsson bendi til þess að framleiða hafi átt meiri fíkniefni. Þá þótti rannsóknarlögreglumanninum Telegram-samskipti í málinu staðfesta hið sama. 

Jaroslava var dæmd til fangelsisvistar ásamt fimm öðrum sem málinu tengjast fyrir amfetamínframleiðslu í sumarbústað í Borgarfirði eins og áður hefur verið greint frá. Um er að ræða „þaulskipulagða ákvörðun um framleiðslu á umtalsvert miklu magni af sterku fíkniefni“, að því er fram kemur í dómnum.

„Pólska leiðin“ talin hafa verið notuð við framleiðslu

Tvö hinna dæmdu eru íslenskir ríkisborgarar, Jaroslava og Grzegorz Marcin Krzton, en hinir pólskir, Jakub Pawel Rzasa, Krzysztof Sieracki, Bartlomiej Szelengiewicz og Dawid Stanislaw Dolecki, og telur lögregla að svokölluð nitrostryne-aðferð hafi verið notuð til að framleiða amfetamínið, sú leið er þekkt á meðal Pólverja og er því gjarnan kölluð pólska leiðin. Aðferðin er almennt lítið notuð vegna þess hve skítugur úrgangur kemur úr henni, að því er fram kemur í dómnum sem féll yfir sexmenningunum. 

„Skipulagðir brotahópar hafi notað nitrostyrene-aðferðina vegna þess að þau kemísku efni og leysiefni sem notuð séu við framleiðsluna séu ekki á lista yfir ólögleg efni í lögum og reglugerðum.  Mörg  þeirra  séu  þó  eftirlitsskyld,“ segir í dómnum. Þar er farið yfir fjöldann allan af efnum sem hin dæmdu viðuðu að sér, meðal annars í gegnum bónstöð sem er í eigu Grzegorz.

Nítján pokar af pólskum barnamat

Á meðal þess sem vekur athygli hvað efnin varðar er það að í sumarbústaðnum fundust umbúðir utan af nítján pokum af pólskum barnamat. Starfsmenn tollstjóra efnagreindu umbúðirnar og í ljós kom að þær hafi innihaldið Trans-Methyl-Nitrostyrene CAS, sem sé annað heiti yfir nitrostyrene. 

Grzegorz neitaði sök en dagana sem lögregla fylgdi fólkinu eftir voru kona og börn hans farin til Póllands. Hafði hann þá skemmt sér „allhressilega“ flest kvöld með Jakub. Grzegorz hlaut þriggja ára fangelsisdóm.

Jakub er í dómnum sagður „aðalmaðurinn“ að baki skipulagningu famleiðslunnar „en hann fékk til landsins þrjá einstaklinga sem höfðu yfir að ráða þekkingu til að búa til amfetamín eftir nitrostyrene-aðferð“.

Jakub greiddi fyrir ferð mannanna sem bjuggu yfir þekkingunni til landsins og kom í hendur þeirra nauðsynlegum búnaði og efnum. Jakub hlaut fjögurra ára fangelsisdóm en hann hefur setið óslitið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn ásamt fjórum öðrum hinna dæmdu í lok febrúar síðastliðins.

Jaroslava segir Jakub hafa nýtt sér góðvild hennar

Jakub og Jaroslava eru í dómnum sögð hafa átt í ástarsambandi. Jaroslava sagði fyrir dómi að það hafi komið henni í opna skjöldu er lögregla hafi haldlagt fíkniefni í bifreið hennar. Jaroslava sagði að Jakub hafi brugðist því trausti sem hún hafi lagt á hann og nýtt sér góðvild hennar. Þá sagði Jaroslava að hún hafi lagt sig fram um að vera samstarfsfús við lögreglu en hún greindi m.a. frá því að fjármunir upp á ríflega fimm milljónir króna væru í bankahólfi hennar. Lögregla gerði fjármunina upptæka en Jaroslava sagði um að ræða fjármuni sem látinn eiginmaður hennar hefði lagt fyrir og dóttir þeirra hefði átt að fá þegar hún hæfi háskólanám. Þá kvaðst Jaroslava ekki vera viðriðin alþjóðleg glæpasamtök og neitaði alfarið sök. 

Dóttir Jaroslövu var einnig kölluð fyrir dóminn en hún kannaðist ekki við að hafa átt pening í bankahólfi móður sinnar. Hún hafi fengið arf eftir að faðir hennar féll frá og ekki vitað um meiri arf en dóttirin flutti út af heimili móður sinnar fyrir um tveimur árum. Jaroslava hlaut þriggja ára fangelsisdóm. 

Jaroslava, Jakub og Grzegorz tjáðu sig öll fyrir dómi en Bartlomiej, Dawid og Krzysztof ákváðu að tjá sig ekki. Þeir hlutu allir fjögurra ára fangelsisdóm.

mbl.is