Heilbrigðisstarfsfólk víðar í sóttkví án launa

Starfsfólk hjúkrunarheimilisins Eirar hefur leitað til Sjúkraliðafélags Íslands vegna ákvörðunar …
Starfsfólk hjúkrunarheimilisins Eirar hefur leitað til Sjúkraliðafélags Íslands vegna ákvörðunar um að laun verði ekki greidd í sóttkví eftir heimkomu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sjúkraliðafélagi Íslands hafa borist fyrirspurnir frá félagsmönnum sem starfa hjá hjúkrunarheimilinu Eir, hjúkrunarheimilinu Skjóli og á Landspítala vegna reglna um að starfsfólk þurfi að fara í heimkomusmitgát, fimm daga sóttkvína sem Íslendingum er gert að fara í við komuna til landsins, á eigin kostnað. Þetta segir Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands. 

Fyrirspurnirnar sem hafa borist eru allar um það hvort hjúkrunarheimilunum og spítalanum sé heimilt að neita starfsfólki sínu um greiðslu þá daga sem það er í sóttkví eftir frí erlendis. Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag tóku forstjóri og framkvæmdastjórn Landspítala ákvörðun um það nýverið að starfsfólk sem þyrfti að fara í heimkomusmitgát fengi ekki greitt á meðan henni stæði. 

Kemur aftan að fólki en í samræmi við fyrirmæli

Aðspurð segir Sandra þó að enginn sjúkraliðanna sem hafi haft samband hafi verið í vandræðum vegna ákvörðunar stofnananna.

„Mér sýnist þetta vera í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda um að fólk sem fer í sjálfskipaða sóttkví eigi ekki rétt á launum,“ segir Sandra. 

Þannig taki þeir sem fari erlendis í frí ákvörðun um að fara í sóttkví við heimkomuna með því að fara út fyrir landsteinana. 

„Hins vegar kemur þessi ákvörðun svolítið aftan að fólki þar sem ekki var fyrirséð að þessu yrði hrint í framkvæmd nema bara með skömmum fyrirvara.“

mbl.is