Meðaltekjur 573 þúsund á mánuði

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru um 6,9 milljónir króna að meðaltali árið 2019 eða að jafnaði 573 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildartekna var um 5,6 milljónir króna á ári og var helmingur einstaklinga með heildartekjur undir 473 þúsund krónum á mánuði og helmingur yfir. Hækkun miðgildis á milli 2018 og 2019 var 0,9% sem er töluvert minni hækkun en síðustu ár að því er segir í nýrri frétt á vef Hagstofu Íslands.

Við samanburð á meðaltekjum eftir aldurshópum sést að heildartekjur ársins 2019 voru langlægstar í aldurshópnum 16 til 24 ára eða um 231 þúsund krónur á mánuði.

„Í því samhengi er rétt að benda á að hér er um að ræða einstaklingstekjur og margir í þessum aldurshópi búa enn í foreldrahúsum. Þá voru heildartekjur hæstar fyrir aldurshópinn 55 til 74 ára eða að jafnaði 669 þúsund krónur á mánuði. Meðalheildartekjur 67 ára og eldri voru 517 þúsund krónur. Helmingur einstaklinga í þeim aldurshópi voru með um 410 þúsund krónur eða lægri heildartekjur á mánuði árið 2019.

Eins er áhugavert að skoða hvernig heildartekjur skiptast í atvinnutekjur, fjármagnstekjur og aðrar tekjur eftir aldurshópum. Í langflestum aldurshópum eru atvinnutekjur stærsti hluti heildartekna að undanskildum aldurshópunum 67 ára og eldri, þar sem aðrar tekjur vega mest. Til atvinnutekna teljast allar launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur en til annarra tekna meðal annars atvinnuleysisbætur, félagsleg aðstoð og lífeyris- eða bótagreiðslur,“ segir á vef Hagstofu Íslands.



mbl.is