Nota líf nemenda til að ná sínu fram

Númi Sveinsson doktorsnemi.
Númi Sveinsson doktorsnemi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Númi Sveinsson, Íslendingur sem stundar nám í Bandaríkjunum, segist vera áhyggjufullur og reiður yfir ákvörðun bandarískra stjórnvalda sem snýr að landvistarleyfum erlendra nemenda þar í landi.

Mbl.is greindi frá því á mánudag að bandarísk stjórnvöld hygðust að fella úr gildi landvistarleyfi erlendra nemenda sem aðeins eru skráðir í fjarnám vegna kórónuveirufaraldursins.

Númi er staddur á Íslandi, en hann mun hefja doktorsnám í vélaverkfræði við Berkeley-háskóla í haust. Hann segist hafa verið hikandi að yfirgefa Bandaríkin þrátt faraldurinn, þar sem hann var hræddur um að vera ekki hleypt aftur inn í landið á haustönn vegna ferðatakmarkanna. „En útaf þessum nýju reglugerðum lítur það út fyrir að mér hefði hvort eð er verið hent út,“ segir Númi.

Neyða skóla til að opna í miðjum faraldri

Hann segir að margir alþjóðlegir nemendur hafi ekki yfirgefið Bandaríkin í vor af ótta við að komast ekki aftur til landsins. „Margir hafa ekki endilega aðstöðu heima fyrir til að vera í fjarkennslu, svo ef þau eru neydd til að yfirgefa landið hefur það áhrif á námið þeirra.“

„Sumir hafa lagt rosalega mikið undir til að komast þangað út og fjárfest miklum peningum, og fjölskyldan þeirra líka.“

Ákvörðun stjórnvalda hefur vakið höfð viðbrögð, en Íslensk stjórnvöld lýstu yfir áhyggjum sínum vegna hennar í vikunni.

„Ég sé bara tvær ástæður fyrir þessari ákvörðun,“ segir Númi. „Annað hvort hatar ríkisstjórnin útlendinga svona mikið og vilji alla út úr landinu, eða að ríkisstjórnin sé að neyða háskóla til að opna í haust. Í miðjum faraldri gæti það haft hræðileg áhrif.“

„Það gerir mig reiðann að stjórnvöld séu að nota líf alþjóðlegra nemenda til að ná sínu fram, að bókstaflega hóta að henda þeim úr landi ef skólar opna ekki í haust,“ segir Númi.

Kaliforníuháskóli í Berkeley leitar leiða til að hjálpa erlendum nemendum
Kaliforníuháskóli í Berkeley leitar leiða til að hjálpa erlendum nemendum

Verður aldrei venjuleg önn

Mbl.is greindi frá því í gær, miðvikudag, að háskólar í Bandaríkjunum hafi kært ákvörðun stjórnvalda og krefjast þess að hún verði stöðvuð og dæmd ólögleg. Þá segir Númi að skólar leiti einnig leiða til að komast framhjá reglugerðum stjórnvalda, svo hún muni hafa sem minnst áhrif á erlenda nemendur.

„Ég veit að skólarnir eru farnir í lagaleg ferli og ætla að kæra þetta, og ætla líka að reyna komast framhjá þessum reglugerðum með hvaða hætti sem þeir komast upp með. Reyna að finna „loop-hole“ í þessum reglum.“

Númi segist sjálfur vera stressaður yfir að fara til Bandaríkjanna í haust. „Ég er samt svo spenntur fyrir að byrja í námi að þetta eru mjög blendnar tilfinningar.“

Smitum fjölgar enn mikið á hverjum degi víða í Bandaríkjunum, en þegar hafa meira en 131 þúsund manns látist af völdum kórónuveirunnar.

Berkeley-háskóli hefur tilkynnt að allir stórir fyrirlestrar verði í fjarkennslu, en að enn verði hægt að hitta kennara og halda smærri tíma í skólanum. „Ég geri mér grein fyrir því að ef ég fer út í haust verður þetta ekkert venjuleg önn, og ég verð eflaust mjög mikið heima eða einn í einhverju horni á bókasafninu,“ segir Númi.

mbl.is