Þórólfur svarar gagnrýni lækna

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir „alrangt“ að það sé ekki hlutverk Landspítalans að sinna landamæraskimun. 

„Því í leyfisveitingu rannsóknarstofu Landspítalans í sýkla- og veirufræði frá 2010 er kveðið sérstaklega á um að þessar rannsóknarstofur hafi hlutverki að gegna í sóttvörnum fyrir landið allt og í vinnslusamningi Landspítala og sóttvarnalæknis frá 2015 er sérstaklega kveðið á um að rannsóknarstofum á Landspítala beri að stunda skimun fyrir smitsjúkdómum sem hafi þýðingu fyrir almannaheill samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Ekki um að ræða milljarða kostnað 

Þar svaraði hann gagnrýni lækna sem komið hefur fram á síðustu dögum sem snýr meðal annars að því að hlutverk Landspítalans sé að sinna veiku fólki, ekki skimun. 

„Það hefur líka verið talað um að milljarða kostnaður falli á Landspítalann vegna kostnaðar. Þetta er tala sem er fjarri öllu lagi. Kostnaðurinn sem fellur á Landspítala felst einkum í því aðuppfæra búnað veirufræðideildarinnar sem þörf hefur verið á að gera í nokkurn tíma,“ sagði Þórólfur sem viðurkenndi þó að aukinn kostnaður myndi verða til vegna aukins mannskaps og yfirvinnu. Sá kostnaður væri þó fjarri þeim tölum sem nefndar hafa verið. 

Þórólfur sagði ekki tímabært að hætta öllum skimunum við landamærin strax en fyrirkomulagi þeirra verði þó líklega breytt um næstu mánaðamót. Þá mun skimunum á landamærum þó ekki vera alfarið hætt heldur verður skimun fyrir þá farþega sem koma frá landsvæðum utan Evrópu þegar þeim verður heimilt að koma hingað. 

mbl.is