Yfir 20 stiga hita spáð á Suðurlandi

Kort/Veðurstofa Íslands

Fremur svölu veðri er spáð á Norðurlandi og Vestfjörðum í dag en þar fer hiti varla langt yfir 12 stigin. Hins vegar má ætla að hlýjast verði á Suðurlandi og er spáð um eða yfir 20 stig syðst á landinu seinnipartinn. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í dag er norðvestanátt í kortunum, sem verður hvössust um 13 m/s með suður- og norðausturströndinni, en annars öllu hægari. Rigning með köflum á norðaustanverðu landinu, en bjartviðri sunnan heiða. 

Á morgun er útlit fyrir keimlíkt veður og í dag en um helgina snýst í suðlægari áttir og líkur eru á vætu, einkum vestanlands segir ennfremur á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Norðvestlæg átt, víða 3-8 m/s, en 8-13 með suðurströndinni og á norðaustanverðu landinu. Bjart með köflum, og líkur á dálitlum síðdegisskúrum syðra, en skýjað og rignir með köflum norðaustan til. Hiti 5 til 13 stig á Norðurlandi og Vestfjörðum, annars 12 til 21 stig, hlýjast syðst.

Vestlæg átt, 3-8 m/s og skýjað með köflum, en heldur hvassari við suður- og austurströndina. Dálítil væta NA-lands, annars þurrt að kalla. Hiti frá 8 stigum norðaustan til, að 20 stigum á Suðausturlandi.

Á laugardag:
Suðvestan 3-8 m/s og skýjað með rigningu V-til, annars skýjað með köflum og þurrt. Hiti 10 til 18 stig, svalast við A-ströndina.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Hæg breytileg átt og dálítil væta af og til í flestum landshlutum. Hiti víða 10 til 17 stig.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt með rigningu og kólnandi veðri norðanlands.

Veður mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert