32,7 milljónir í orkuskipti í Þórsmörk og á Goðalandi

Það er alltaf fallegt landslagið í Þórsmörk og á Goðalandi.
Það er alltaf fallegt landslagið í Þórsmörk og á Goðalandi. Ljósmynd/Aðsend

Veittir hafa verið styrkir upp á samtals 35,2 milljónir vegna orkuskipta í gistiskálum, en þar af fara 32,7 milljónir í styrki vegna orkuskipta í skálum Ferðafélags Íslands í Þórsmörk og Ferðafélagsins Útivistar í Básum á Goðalandi. Þriðji styrkurinn er upp á 2,5 milljónir fyrir skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Brieðuvík í Borgarfirði Eystra.

Það er umhverfis- og auðlindarráðherra sem úthlutaði styrkjunum, en þeir eru fjármagnaðir af sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna Covid-19 farsóttarinnar. Nemur upphæðin 50% af áætluðum kostnaði við verkefnin.

Skúli H. Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar, segir í samtali við mbl.is að í Básum hafi verið unnið að þessu hörðum höndum það sem af er ári og stefnt sé að því að skipta algjörlega yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Skúli H. Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar.
Skúli H. Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Rafvæðingin næst með rafstreng á vegum Rarik úr Fljótshlíð, en loftstrengur var lagður yfir Markarfljót í Húsadal og þaðan jarðleiðina í Langadal og undir Krossá í Bása. 

Meðal þess sem ráðist hefur verið í í Básum er að skipta út kyndingu. Var rafmagnskyndingu með varmadælu komið upp á báðum skálunum og er sú kynding þegar komin í gagnið. Þá verður í framhaldinu settar upp rafmagnshellur til eldunar. Skúli segir að enn verði einhverjar sturtur með gasi „en þær munu víkja fyrr en síðar.“ Segir hann þetta hafa kallað á talverðar framkvæmdir á skálum félagsins í Básum, en þar var farið í framkvæmdir í vor. Segir Skúli að enn sé unnið að minni atriðum og að klára rafmagnsvinnuna.

„Það er gleðilegt að þetta sé komið. Við erum ánægð með að fá þennan stuðning þar sem þetta er þungur biti fyrir lítið áhugamannafélag,“ segir Skúli.

Básar í Goðalandi.
Básar í Goðalandi. mbl.is/Árni Sæberg

Vegna farsóttarinnar hefur Útivist orðið fyrir talsverðum áhrifum. Skúli segir að talsverður munur sé á milli skála, en í sumum skálum félagsins sé allt að 60-70% samdráttur í bókunum. Það eigi sérstaklega við nokkra skála félagsins á Fjallabaki þar sem helstu viðskiptavinir hafi verið ferðaskrifstofur sem sérhæfi sig í gönguferðum með erlenda ferðamenn.

„En glætan í myrkrinu er að við sjáum Íslendinga koma í staðinn,“ segir Skúli og bætir við að margir séu að nýta sér tækifærið og fara á hálendið í gönguferðir nú þegar þeir komist ekki erlendis í sumarfrí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert