Gjaldkerinn dæmdur í árs fangelsi

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrrverandi gjaldkeri Björgunarfélags Árborgar hlaut í dag í Héraðsdómi Suðurlands eins árs fangelsisdóm, þar af níu mánuði skilorðsbundna, fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti í starfi sínu fyrir björgunarsveitina. Var hann fundinn sekur um að hafa dregið sér eða látið björgunarsveitina greiða 17,7 milljónir fyrir eigin útgjöld.

Var maðurinn fundinn sekur um fjárdrátt með því að hafa í á fimmta hundrað skipti annað hvort dregið sér fjármuni af reikningum félagsins, eða fyrir umboðssvik með því að hafa skuldbundið félagið með því að nota kreditkort félagsins eða sett úttektir í reikningsviðskipti í nafni björgunarsveitarinnar. Aðeins í tæplega tíu tilfellum taldi dómurinn að ekki væri hafið yfir skynsamlegan vafa að úttektir mannsins væru í hans þágu og án heimildar.

Maðurinn dró sér í tæplega 180 skipti fjármuni af reikningi björgunarsveitarinnar, samtals um 14,7 milljónir. Þá tók hann í 57 skipti af kreditkorti félagsins 856 þúsund krónur og í um 200 skipti setti hann í reikningsviðskipti, aðallega vegna eldsneytisúttekta, um tvær milljónir.

Maðurinn játaði hluta brota sinna og hafði meðal annars viðurkennt fyrir stjórn sveitarinnar að hafa dregið sér 400 þúsund krónur.

Maðurinn gaf meðal annars þær skýringar á gjörðum sínum að hann hafi byrjað að draga sér fé þar sem enginn fylgdist með og að þetta „hafi orðið spenna og fíkn.“ Að öðru leyti gaf hann ekki sérstakar skýringar á háttsemi sinni. Vísaði hann til þess að áður en hann hóf að draga sér fé hafi komið upp mál innan sveitarinnar þar sem annar félagsmaður hafi misnotað olíukort þess. Sá hafi sloppið vel og það hafi verið hvatinn fyrir sig að prófa þetta þar sem sá félagsmaður hafi ekki hlotið neina refsingu.

Sem fyrr segir fékk maðurinn árs dóm og var gert að greiða 3,8 milljónir í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert