Hægt að halda hlaupið en með allt öðrum hætti

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður með breyttu sniði í ár.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka verður með breyttu sniði í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipulagning Reykjavíkurmaraþonsins hefur verið heldur óvenjuleg í ár samanborið við síðustu ár. Meta þarf stöðuna eftir að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að líklega yrði áfram 500 manna fjöldatakmörkun í gildi út ágústmánuð.

Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur, segir að hlaupið sé skipulagt í samræmi við leiðbeiningar frá yfirvöldum. 

„Við förum auðvitað eftir þeim leiðbeiningum sem yfirvöld gefa en þær hafa náttúrulega verið að breytast. Það var smá „mood-killer“ fyrir okkur þegar það kom fram í gær að það yrði líklegast ekki 2.000 manna takmörkun í ágúst. Við höfum verið að skipuleggja okkur í samræmi við þessar leiðbeiningar og gerðum okkur væntingar um að geta miðað við 2.000,“ segir Frímann. 

Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir hef­ur sagt það lík­legt að fjölda­tak­mörk­un­um verði haldið í 500 manns út ág­úst. Áður hafði Þórólf­ur lagt til við heil­brigðisráðherra að 2.000 manns mættu koma sam­an frá og með 13. júlí. 

„Við höfum bara verið að fara yfir stöðuna og hvernig við getum brugðist við. Það verður alveg hægt að halda hlaup en það verður bara með allt öðrum hætti. Við erum að reyna að finna mögulegar lausnir,“ segir Frímann. 

Frímann segir að upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir því að hlaupið yrði ræst út í 1.500 manna hópum. 

„En miðað við þessar forsendur erum við væntanlega komin í um 500 manna hópa. Ef það á að vera hægt að gera þetta verður það að vera þannig,“ segir Frímann. 

Hann segir að talsverður áhugi hafi verið erlendis frá á þátttöku í hlaupinu. 

„Það er búið að fresta mikið af hlaupum út um alla álfu og víðar þannig það er talsvert um að erlendir þátttakendur eru að skrá sig og spyrjast fyrir um þetta. En svo verður það bara að koma í ljóst hverjir komast inn í landið og hvernig því öllu verður háttað þegar það kemur að þessu. Það er mikið af óvissuþáttum. Þetta er mjög frábrugðið því sem verið hefur,“ segir Frímann. 

Þá segir Frímann að ráðstafanir verði gerðar vegna áhorfenda, en fjölmargir söfnuðust saman í miðborginni þegar hlaupið fór fram á síðasta ári. 

„Við höfum meðal annars verið að skoða þann möguleika að streyma beint frá marksvæðinu þannig að fólk geti bara fylgt með þessu á netinu,“ segir Frímann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert