Landamæraskimun komi ekki niður á starfsemi LSH

Frá aðstöðu sýkla- og veirufræðideildar Landspítala.
Frá aðstöðu sýkla- og veirufræðideildar Landspítala. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efnahagsleg sjónarmið liggja ekki að baki þeirri ákvörðun stjórnvalda að halda landamæraskimun áfram, þrátt fyrir að álagið færist frá Íslenskri erfðagreiningu til Landspítalans, í stað þess að grípa aftur til sóttkvíar fyrir öll sem til landsins koma, að mati heilbrigðisráðuneytisins. Ekki er gert ráð fyrir því að greining sýna muni koma niður á starfsemi Landspítala að neinu leyti, að sögn heilbrigðisráðuneytisins.

mbl.is sendi fyrirspurn á heilbrirgðisráðuneytið vegna ummæla lækna á Landspítalanum þess efnis að það væri ekki hlutverk Landspítalans að taka við greiningar sýna úr skimun á landamærunum og hlutverk Landspítalans sé að sinna veiku fólki. Þar kemur fram að hlustað sé á sjónarmið allra, þar á meðal starfsmanna á Landspítala.

„Landspítalinn hefur hlutverki að gegna í sóttvörnum Íslands og hefur nú verið falið að annast vinnslu á öllum sýnum sem tekin eru við landamæri“, segir í svarinu sem barst frá Ástu Valdimarsdóttur ráðuneytisstjóra.

Hlutverk rannsóknarstofa að sinna rannsóknum

Á Landspítalinn ekki fyrst og fremst að sinna veiku fólki?

„Eins og fram hefur komið, til dæmis í máli sóttvarnarlæknis, er það beinlínis hlutverk rannsóknastofa Landspítala að sinna rannsóknum á smitsjúkdómum samkvæmt fyrirmælum sóttvarnarlæknis.“

Liggja efnahagsleg sjónarmið að baki því að stjórnvöld vilji halda landamæraskimun áfram í stað þess að fara aftur í sóttkví fyrir alla sem koma til landsins?

„Nei, heilsufarsleg sjónarmið koma fyrst. Í þessum faraldri höfum við reynt að verða okkur út um reynslu og byggja ákvarðanir á henni. Svo er einnig um landamæraskimun. Reynsla af henni verður metin í lok júlí og ákvörðun um framhald tekin í samræmi við það.“

Nefndarmaður í sóttvarnaráði gagnrýndi á dögunum samráðsleysi yfirvalda við grasrót heilbrigðiskerfisins. Í svari ráðuneytisins segir að ráðherra og ráðuneyti hafi haft reglulegt samráð við forstjóra heilbrigðisstofnana á svokölluðum samráðsfundum og sérstökum fundum eftir þörfum. Það sé sóttvarnalæknis að kalla sóttvarnaráð saman, ekki heilbrigðisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert