Þurfi að vera innan heimilda stofnanasamninga

Líkt og Áslaug Arna tjáði blaðakonu mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í …
Líkt og Áslaug Arna tjáði blaðakonu mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun segist hún taka mark á lögfræðiálitinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég fékk þau svör í október þegar samningurinn komst í hámæli að ríkislögreglustjóri hefði haft heimild til að gera slíkan samning, en þegar forstöðumenn gera slíka samninga þurfa þeir að vera í samræmi við markmið stofnanasamnings sem er í gildi,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is vegna lögfræðiálits sem núverandi ríkislögreglustjóri aflaði um samninga sem forveri hennar í starfi gerði við níu yfirlögregluþjóna síðastliðið haust sem tryggðu þeim aukin lífeyrisréttindi.

Samkvæmt lögfræðiálitinu var þáverandi ríkislögreglustjóra ekki heimilt að skuldbinda lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, auk þess sem þeir hafi ekki verið í samræmi við gildandi stofnana- og kjarasamninga. Af þeim sökum væri heimilt að ógilda kjarasamningana, og hefur Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri tilkynnt yfirmönnum hjá embættinu að hún hyggist vinda ofan af ákvörðun Haralds Johannessen, forvera hennar í starfi.

Fól núverandi ríkislögreglustjóra að skoða breytingarnar

Áslaug Arna segist hafa óskað eftir umsögn frá kjara- og mannauðssýslu ríkisins síðastliðið haust og að þar hafi komið fram að ef forstöðumenn gerðu breytingar þyrftu þær að vera innan heimilda stofnanasamnings og í takti við breytingar á starfi. „Við óskuðum í kjölfarið eftir upplýsingum og skýringum frá embætti ríkislögreglustjóra, en þær bárust ekki,“ segir Áslaug Arna.

„Þegar þessi umsögn frá kjara- og mannauðssýslunni lá fyrir þá fól ég ríkislögreglustjóra að skoða breytingarnar og þetta lögfræðiálit sem liggur fyrir núna er auðvitað bara afstaða ríkislögreglustjóra um málið og það er bara í ferli þar.“

Samkvæmt lögfræðiálitinu sem Sigríður Björk aflaði höfðu samningarnir ekki  stoð í lög­um og stofn­ana­samn­ingi ríkslög­reglu­stjóra og Lands­sam­bands lög­reglu­manna.

Líkt og Áslaug Arna tjáði blaðakonu mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í morgun segist hún taka mark á lögfræðiálitinu. „Það bara liggur fyrir og það var ekki búið að afla lögfræðiálits áður á þessu. Auðvitað hafa forstöðumenn almennt heimild til að gera slíkan samning, en hann verður auðvitað að vera innan þeirra samninga sem eru í gildi og þær breytingar sem verða á störfum.“

Hafa nú rými til að koma sjónarmiðum á framfæri

Hið minnsta tveir af þeim yfirlögregluþjónum sem samningurinn náði til hyggjast andmæla lögfræðiálitinu og vinnur lögmaður Landssambands lögreglumanna nú að öðru lögfræðiáliti vegna málsins, að því er Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn tjáði mbl.is í gærkvöldi. 

„Það er núna rými til þess svo þeim gefst kostur á að koma fram sínum sjónarmiðum,“ segir Áslaug Arna að lokum.

mbl.is