Verslunarmannahelgin öðruvísi en áður

„Ég held að við höf­um al­veg sýnt það að við …
„Ég held að við höf­um al­veg sýnt það að við höf­um al­veg haldið áfram að lifa í gegn um þetta,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er alveg rétt að hún verður ekki eins og venjulega en Íslendingar hafa sýnt það í þessum faraldri að við getum gert hlutina alveg ofboðslega vel þó það sé öðruvísi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um verslunarmannahelgina sem verður þetta árið í skugga 500 manna samkomubanns.

Áður stóðu vonir til þess að 2.000 mættu koma saman fyrir verslunarmannahelgi og setja nýjar fréttir um 500 manna takmörk strik í reikninginn fyrir ýmsa sem ætluðu sér á stór mannamót þessa stærstu ferðahelgi ársins. Þannig er útlit fyrir að Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verði ekki haldin í fyrsta sinn í 145 ára sögu hátíðarinnar.

„Höfum alveg haldið áfram að lifa“

Katrín telur að þær sóttvarnaráðstafanir sem gripið hafi verið til hérlendis hingað til gangi mun skemur á frelsi fólks en í nágrannalöndunum. 

„Hér var skólunum haldið opnum og starfandi. Hér voru vissulega lokanir en aldrei útgöngubann eða neitt slíkt þannig að við höfum vandað okkur og sóttvarnalæknir og stjórnvöld hafa unnið saman að því að  ná sem mestum árangri á sóttvarnasviðinu án þess að skerða frelsi fólks. Ég held að við höfum alveg sýnt það að við höfum alveg haldið áfram að lifa í gegn um þetta.“

Telja sig fara varlega í sakirnar

Læknar á Landspítala hafa stigið fram eftir að í ljós kom að Landspítali tæki við greiningu sýna úr landamæraskimun og sagt fyrirkomulagið óheppilegt. Spurð um þessa gagnrýni segir Katrín:

„Við metum það svo að þetta sé rétt ráðstöfun til að bregðast við þessari sóttvarnarvá sem er uppi. Þessi faraldur er ekki búinn og það er alveg á hreinu að við teljum okkur vera að gera þessa hluti eins varlega og við getum vegna lýðheilsusjónarmiða.“

mbl.is