Andlát: Andrés Indriðason

Andrés Indriðason.
Andrés Indriðason. Ljósmynd/Aðsend

Andrés Indriðason, frumkvöðull á sviði íslenskrar dagskrárgerðar í sjónvarpi, er látinn, 78 ára að aldri.

Andrés Indriðason fæddist í Reykjavík 7. ágúst 1941. Hann starfaði sem blaðamaður, kennari, dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi, við kvikmyndagerð og ritstörf. Hann hefur einnig þýtt fjölda bóka og þætti fyrir Sjónvarpið.

Andrés varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1963 og stundaði enskunám við Háskóla Íslands 1963-64. Hann nam kvikmyndagerð og dagskrárgerð fyrir sjónvarp í Árósum og Kaupmannahöfn 1965 og 1966. Hann vann sem dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpinu frá stofnun þess árin 1966-85. Frá 1985 starfaði hann sem rithöfundur, og vann samhliða sjálfstætt að dagskrárgerð í Sjónvarpinu. Einnig vann hann að kvikmyndagerð sem leikstjóri og handritshöfundur. Hann var m.a. upptökustjóri og umsjónarmaður Gettu betur í 25 ár og hlaut fyrir það Edduverðlaunin.  

Andrés skrifaði meira en 30 skáldsögur og tugi leikverka fyrir útvarp, sjónvarp og leiksvið, t.d. Þjóðleikhúsið og Kópavogsleikhúsið. Fyrsta bók hans, Lyklabarn, hlaut fyrstu verðlaun í barnabókasamkeppni Máls og menningar árið 1979. Önnur bók hans Polli er ekkert blávatn hlaut verðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur sem besta frumsamda bókin árið 1981. Fyrir bókina Það var skræpa hlaut Andrés verðlaun Námsgagnastofnunar í samkeppni um létt lesefni fyrir börn árið 1984. Bækur hans hafa verið gefnar út í Þýskalandi, Sviss, Austurríki og Danmörku.

Útvarpsleikrit Andrésar hafa verið flutt alls staðar á Norðurlöndunum og í Bretlandi og leiknar sjónvarpsmyndir hans fyrir börn hafa verið sýndar víða um heim. Einnig gerði hann leiknar kvikmyndir fyrir börn á vegum Námsgagnastofnunar, skrifaði handrit og leikstýrði, og eru myndirnar notaðar sem kennsluefni, hérlendis og erlendis. 

Andrés skapaði ástsælu brúðupersónurnar Glám og Skrám sem birtust í leikþáttum í Stundinni okkar. Einnig samdi hann sögu- og söngtextana á hljómplötunni Glámur og Skrámur í sjöunda himni 1979.  

Andrés skrifaði og leikstýrði fjölskyldumyndinni Veiðiferðinni sem frumsýnd var árið 1980 og er enn í dag ein mest sótta kvikmynd sem gerð hefur verið hérlendis.   

Andrés lætur eftir sig eiginkonu, Valgerði Ingimarsdóttur. Dætur þeirra eru Ester, f. 1973, og Ásta, f. 1976. Barnabörnin eru þrjú.

mbl.is