Bein útsending frá Gullhringnum

Gullhringurinn hefst og endar á Laugarvatni.
Gullhringurinn hefst og endar á Laugarvatni. Ljósmynd/Aðsend

Hjólreiðakeppnin KIA Gullhringurinn fer fram nú í kvöld í nágrenni Laugarvatns, en þetta er jafnan með stærstu hjólreiðaviðburðum ársins. Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu frá keppninni hér á mbl.is, en hjólreiðamennirnir og viskubrunnarnir Hörður Ragnarsson og Sigurður Karl Guðgeirsson sjá um útsendinguna og lýsa því sem fyrir augu ber.

Í KIA Gullhringnum eru farnar þrjár leiðir, mislangar; gull, silfur og brons. Lengsta leiðin er 106 km, næsta tæplega 60 km og stysta leiðin 48 km. Þeir Hörður og Sigurður munu fylgja þeim sem keppa í lengstu leiðinni, auk þess að vera með upphitun áður en keppnin hefst. 

Það má búast við góðri stemningu, en auk þess að mótið er jafnan vel sótt, þá hefur skapast sú hefð að sumarbústaðareigendur og íbúar uppsveitanna safnast saman við sín gatnamót við Laugarvatnsveg og Biskupstungnabraut þar sem keppnin fer um og barið þar potta og pönnur til hvatningar keppendunum. Skipulagðar hvatningarstöðvar verða einnig við gatnamót Biskupstungnabrautar og Miklaholts, upp undir Reykholti í Biskupstungum, á malbikaða útsýnisplaninu við Brúará og svo á horni Biskupstungnabrautar (34) og Laugarvatnsvegar (37).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert