Bróðir þinn hefur ákveðið að deyja

Ingvi Hrafn Jónsson vill opna umræðuna um dánaraðstoð á Íslandi.
Ingvi Hrafn Jónsson vill opna umræðuna um dánaraðstoð á Íslandi. Arnþór Birkisson

„Ingvi minn, bróðir þinn hefur ákveðið að deyja,“ sagði Guðrún Mjöll Guðbergsdóttir á hinum enda línunnar í Kanada. Hér í Reykjavík hváði Ingvi Hrafn Jónsson, sem hringt hafði til að spyrja um líðan Jóns Arnar, bróður síns, sem lá á spítala þar vestra. „Hvað meinarðu, Úlú mín? Við deyjum öll á endanum,“ sagði hann hvumsa. „Nei, þetta er öðruvísi. Hann hefur ákveðið að nýta ákvæði í kanadískri löggjöf frá 2016 og óska eftir að fá heimild til að fá aðstoð starfsfólks sjúkrahússins til að binda enda á líf sitt,“ bætti Guðrún Mjöll við.

„Mig setti bara hljóðan,“ rifjar Ingvi Hrafn upp í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins, „en þegar ég gerði mér grein fyrir því að mágkona mín var með tárin í augunum skynjaði ég alvöru málsins. Jón Örn, elsti bróðir minn, var að fara að kveðja þennan heim.“

Í minningargrein sem Ingvi Hrafn ritaði um Jón Örn í Morgunblaðið 2. júlí síðastliðinn lýsir hann þeim tilfinningum sem helltust yfir hann í framhaldinu. „Fyrir mér tóku við margar nætur martraða, þar sem ég var við dauðans dyr, vaknandi með hjartslátt og vanlíðan, skildi ekki hvað bróðir minn var að fara og treysti mér ekki til að hringja í símann á náttborði hans, símtal sem mágkona mín sagði mér að hann biði eftir,“ segir Ingvi Hrafn í greininni.

Í samtali okkar segir Ingvi Hrafn ákvörðun Jóns Arnar hafa komið eins og þrumu úr heiðskíru lofti. „Hann hlýtur að hætta við þetta, var það eina sem komst að hjá mér næstu daga.“

Símtalið breytti öllu

Hann mannaði sig loksins upp og hringdi í bróður sinn á spítalann í Regina í Saskatchewan-fylki. Það samtal, sem stóð í hálfa klukkustund, breytti öllu. „Jón Örn sannfærði mig um að hann væri að gera hið eina rétta; að það væri enginn valkostur. Hann væri orðinn mikið veikur og gæti ekki hugsað sér að verða byrði á fjölskyldu sinni og samfélaginu,“ segir Ingvi Hrafn. „Ég legg það ekki á þau og ég legg það ekki á sjálfan mig, sagði hann. Röddin var svolítið brostin og ég skynjaði þreytu en alls enga uppgjöf. Þetta var algjör stálvilji af hans hálfu og hann var ekki í vafa um að þetta væri öllum fyrir bestu. Þegar maður setur sig í hans spor getur maður ekki annað en komist að sömu niðurstöðu. Bræðraspjalli okkar lauk með því að ég einfaldlega óskaði honum góðrar ferðar og bað fyrir kveðjur til foreldra okkar og Óla Tynes, bróður okkar, sem lést 2011, náði að herða upp hugann og halda aftur af tárunum, þar til við lögðum á.“

Jón Örn Jónsson og Guðrún Mjöll Guðbergsdóttir, ásamt syni sínum, …
Jón Örn Jónsson og Guðrún Mjöll Guðbergsdóttir, ásamt syni sínum, Hauki Hávari. Myndin er tekin 22. mars 2014, á gullbrúðkaupsdegi þeirra.


Kom ekki á óvart

Jón Örn greindist með stórt góðkynja heilaæxli árið 2010 og þurfti að fara í erfiðan uppskurð. Hann fékk heilabólgu þremur vikum eftir heilauppskurðinn, auk þess sem hann datt og fékk blæðingu á heilann 2013. Jón Örn fékk slag í október 2019 og var jafnvægið aldrei gott eftir það og datt hann illa í fleiri skipti. Guðrún Mjöll segir hann af mikilli elju hafa jafnað sig merkilega vel af öllum þessum veikindum enda þótt hann hafi aldrei náð fyrri styrk aftur. Seinustu árin gerði krónísk þvagrásarsýking Jóni Erni lífið leitt og lenti hann ítrekað inn á spítala. Alltaf reis hann upp aftur en undir það síðasta voru lífsgæði hans orðin lítil sem engin.

„Síðasta árið í lífi hans var mjög erfitt. Hann lagðist inn á spítala í mars en fékk að fara heim í byrjun apríl. Hann fann strax að ekki gengi að vera heima enda var hann þjáður og þurfti alveg manninn með sér. Þess vegna fór hann strax aftur á spítalann. Jón Örn átti orðið mjög erfitt með gang án aðstoðar, gat lítið sem ekkert lesið og hafði enga ánægju af því að borða; þessi mikli matmaður sem hann alla tíð var,“ segir Guðrún Mjöll.

Það var læknirinn sem hringdi í Guðrúnu Mjöll og Hauk, son hennar, og tilkynnti þeim að Jón Örn hefði lagt fram téða beiðni. „Við töluðum við hann seinna sama dag og sögðum honum að við styddum ákvörðunina. Við höfðum svo sem ekki verið að hugsa sérstaklega um þennan möguleika en þekktum vilja hans og því kom þetta okkur ekki á óvart.“

Um leið og leyfið lá fyrir, föstudaginn 15. maí, vildi Jón Örn drífa í þessu strax á mánudeginum sem Guðrún Mjöll segir staðfesta hversu ákveðinn eiginmaður hennar hafi verið. Hauki tókst á hinn bóginn að sannfæra hann um að bíða aðeins lengur enda hefðu þau móðir hans lítið sem ekkert séð hann vikum saman. Haukur fékk að hitta föður sinn daglega síðustu vikuna og Guðrún Mjöll síðustu þrjá dagana sem hann lifði. Þær stundir voru að vonum ómetanlegar.

Dánaraðstoðin fór fram fimmtudaginn 21. maí, sex dögum eftir að leyfið fékkst. Guðrún Mjöll og Haukur voru viðstödd og héldu í hendurnar á Jóni Erni. Auk þeirra voru fjórir sérhæfðir hjúkrunarfræðingar viðstaddir, þar af einn nemi sem er að setja sig inn í ferlið, með leyfi aðstandenda. Jóni Erni voru gefnar nokkrar sprautur uns hann sofnaði og yfirgaf þennan heim. Alls tók það ekki nema fimm mínútur.

Nánar er rætt við Guðrúnu Mjöll og Ingva Hrafn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, auk þess sem fjallað er um kanadísku löggjöfina um dánaraðstoð eða lífsrof. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »