CCP flytur og fjölgar starfsfólki

Húsið nefnist Gróska og er hluti af vísindagörðum Háskólans.
Húsið nefnist Gróska og er hluti af vísindagörðum Háskólans. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur flutt inn í nýjar höfuðstöðvar í Vatnsmýri. Húsið nefnist Gróska og er hluti af vísindagörðum Háskólans, en þar verður einnig aðstaða fyrir þjónustustarfsemi og ráðstefnur, auk þess sem ein­yrkj­um og fyr­ir­tækj­um í ný­sköp­un, þróun og rann­sókn­um gefst kost­ur á að vera með aðstöðu í hús­inu. Þá verður World Class-stöð í húsinu.


Samhliða flutningunum hefur CCP fjölgað starfsmönnum um 20 undanfarna mánuði og starfa nú um 220 manns hjá fyrirtækinu hérlendis. Í yfirlýsingu frá CCP er haft eftir Hilmari Veigari Péturssyni forstjóra að aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að styðja við nýsköpun, þar sem þak á endurgreiðslr vegna nýsköpunarverkefna var hækkað tímabundið til tveggja ára, hafi virkað sem hvatning fyrir CCP til áframhaldandi vaxtar á Íslandi.

Eftirspurn eftir leikjum fyrirtækisins hefur aukist síðstu vikur og mánuði og er spilun á EVE Online, vinsælasta leik fyrirtækisins, með því mesta sem hún hefur nokkru sinni mælst og spilar um hálf milljón manna leikinn í hverjum mánuði.

Fyrirtækið er með til þróunar nýjan farsímaleik, EVE Echoes, sem byggður er á EVE Online-heiminum og unninn í samstarfi við kínverska leikjaframleiðandann NetEase. Leikurinn kemur út í ágúst en þegar hafa 3,6 milljónir farsímanotenda forskráð sig til að geta spilað leikinn um leið og hann kemur út.

mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is/Sigurður Ragnarsson
mbl.is