Hundur glefsaði í barn

mbl.is/Eggert

Tilkynnt var til lögreglunnar um hund sem glefsaði í barn í Breiðholtinu (hverfi 109) um kvöldmatarleytið í gær. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að ekki sé vitað um meiðsl. Hundurinn mun ekki vera skráður en búinn að fara í allar sprautur og hreinsun.

Viðskiptavinur sem var ósáttur við afgreiðslu í verslun í miðborginni á áttunda tímanum í gærkvöldi  sló afgreiðslumanninn í andlitið og skemmdi borð í versluninni. Þegar lögregla kom á vettvang var ofbeldismaðurinn farinn en vitað hver hann er.  Málið er í rannsókn hjá lögreglunni.

Upp úr klukkan 22 var tilkynnt til lögreglu um mann í annarlegu ástandi á bar í miðborginni en hann var búinn að vera ofbeldisfullur og var í tökum dyravarða.  Maðurinn var handtekinn og vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

mbl.is