Íslendingar mun duglegri að mæta

Siglt um Jökulsárlón
Siglt um Jökulsárlón mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum að fá talsvert fleiri Íslendinga en við höfum gert síðustu ár. Þeir eru að skila sér sem er alveg frábært,“ segir Ágúst Elvarsson, rekstrarstjóri Jökulsárlóns, í samtali við mbl.is. Að hans sögn er ljóst að ferðagjöf stjórnvalda til almennings er að skila sér í aukinni umferð á svæðinu.

Talsvert hefur dregið úr umferð á svæðinu, en hún er nú rétt um helmingurinn af því sem hún var þegar best lét. Hefur fyrirtækið ekki farið varhluta af ástandinu sem skapast hefur vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Umferðin aukist síðustu vikur

„Þetta er kannski ekki nema fjórðungur af því sem þetta var áður. Við erum með helming starfseminnar í gangi þannig að við getum mætt eftirspurninni þegar mikið er að gera. Við erum því búin að minnka umsvifin alveg um helling,“ segir Ágúst og bætir við að umferðin hafi aukist jafn og þétt undanfarnar vikur.

„Það hefur aukist nokkuð eftir að landið var opnað, en sömuleiðis eru fleiri Íslendingar að koma. Í fyrradag komu um 400 manns til okkar, þar af helmingurinn Íslendingar. Sama dag í fyrra voru um 1.400 manns þannig að þetta er talsvert minna. Ef þetta heldur hins vegar svona áfram þá fer þetta fram úr svartsýnustu spám,“ segir Ágúst sem kveðst bjartsýnn á að hægt verði að bæta eilítið við starfsemina haldi þróunin áfram.

mbl.is