Ofurölvi ungmennum komið til aðstoðar

Lögreglan handtók nokkra einstaklinga í nótt sem eru grunaðir um …
Lögreglan handtók nokkra einstaklinga í nótt sem eru grunaðir um sölu fíkniefna. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af tveimur ofurölvi unglingspiltum í Mosfellsbæ á ellefta tímanum í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni voru piltarnir, sem eru 16 ára gamlir, í mjög slæmu ástandi og komu foreldrar þeirra og sóttu þá. 

Ofurölvi maður var handtekinn í Austurstræti um klukkan 20 í gær en hann var svo ölvaður að hann gat ekki gert grein fyrir sér. Maðurinn er vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af ölvuðum manni í Árbæ skömmu eftir miðnætti í nótt en hann var að krota á vegg (graffa) og hafði ekki leyfi frá húseiganda. Lagt var hald á bakpoka með spreybrúsum og verkfæri og manninum kynnt að hann yrði kærður fyrir eignaspjöll.

Fíkniefnasalar handteknir 

Ökumaður sem lögreglan stöðvaði í Breiðholti (hverfi 111) um klukkan 20 í gærkvöldi  reyndist ekki vera með gild ökuréttindi og er um ítrekað brot að ræða. Maðurinn var með eins árs gamalt barn sitt í bifreiðinni en bifreiðin reyndist ótryggð og voru skráningarnúmer klippt af. Lögreglan tilkynnti málið til Barnaverndar.

Um miðnætti stöðvaði lögreglan för bifreiðar á Suðurlandsvegi við Rauðavatn. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn og tveir farþegar í bifreiðinni voru síðan handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu en þeir eru grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Hafnarfirði í nótt og voru ökumaðurinn og farþegi hans handteknir og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Mennirnir eru grunaðir um ýmis brot tengd vörslu, dreifingu og sölu fíkniefna.

Á níunda tímanum í gærkvöldi stöðvaði lögreglan för ökumanns í austurbænum (hverfi 104) en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, aka sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum.

Í nótt var síðan ökumaður stöðvaður annars staðar í austurbænum (hverfi 105) en hann er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu og sölu fíkniefna. Ökumaðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Um miðnætti var för ölvaðs ökumanns stöðvuð á Hafnarfjarðarvegi og síðdegis í gær stöðvaði lögreglan próflausan ökumann í Kópavogi en maðurinn, sem er sviptur ökuréttindum, hefur ítrekað verið stöðvaður undir stýri.

mbl.is