Páfagaukurinn þorði ekki niður

Slökkviliðsmennirnir ásamt Önnu eiganda páfagaukanna.
Slökkviliðsmennirnir ásamt Önnu eiganda páfagaukanna. Ljósmynd slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom páfagauk til bjargar í gærkvöldi en páfagaukurinn, sem ekki átti að vera með flugfjaðrir, flaug upp á þak og þorði síðan ekki niður.

Að sögn Guðjóns Sigurðar Guðjónssonar, aðstoðarvarðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, hafði ung stúlka, sem á sex páfagauka, farið út að ganga með þá þegar annar þeirra, Ari, flaug upp á þak þriggja hæða húss við Nesveg. Enginn var heima á efstu hæð hússins og var því brugðið á það ráð að hafa samband við slökkviliðið sem brást vel við hjálparbeiðninni.

Tveir slökkviliðsmenn fóru ásamt stúlkunni og hinum páfagauknum upp á þak með körfubíl og tókst stúlkunni með aðstoð hins páfagauksins að lokka til sín þann lofthrædda og koma honum niður. Páfagauknum varð ekki meint af ævintýrinu en um mjög verðmæta páfagauka er að ræða.

Viktoría Hermannsdóttir ræddi við Önnu um páfagaukana í Landanum á RÚV 17. maí.

mbl.is