Breytingin Íslandi að þakka

mbl.is/Hari

Norrænu ríkin hafa löngum lýst því yfir að mannréttindamál séu í forgangi í utanríkisstefnu þeirra en því miður hafa þau ítrekað verið ósamkvæm sjálfum sér, segir í grein sem birt er á vef Mannréttindavaktarinnar, Human Right Watch. Aftur á móti bendir ýmislegt til þess að þetta sé að breytast og það má rekja til Íslands segir greinarhöfundur, Bruno Stagno Ugarte

Ugarte talar um misheppnaða tilraun Svía þegar kemur að femínisma en jafnréttismál voru sett í stefnuskrá landsins í utanríkismálum árið 2014. Þessu framtaki hafi verið hrósað en því miður hafi þetta ekki haft nein áhrif í löndum þar sem alvarleg réttindabrot eru framin.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danir og Finnar hafa ýmis mannréttindamál í utanríkisstefnum sínum án þess að það hafi haft einhver áhrif á afstöðu þeirra til landa þar sem slík brot eru framin og Noregur sem er þekkt fyrir framgöngu sína í friðarviðræðum hefur forðast að mestu að nefna mannréttindamál í utanríkisstefnu sinni frá því í fyrra.

Greinarhöfundur telur nauðsynlegt vegna breyttar stöðu í heiminum varðandi mannréttinda umræðuna að norrænu ríkin taka af skarið og leiði þessa umræðu. Ekki síst vegna afstöðu Bandaríkjanna í dag og að Bretland einbeiti sér að brexit fremur en öðru. Frakkar, sem iðulega segja Frakkland vöggu mannréttinda, gera lítið sem ekkert og valda stöðugt vonbrigðum að sögn greinarhöfundar. Þjóðverjar einbeiti sér að því að halda Evrópusambandinu saman, þannig að boltinn er hjá Norðurlöndunum. 

Því sé jákvætt að sjá, að svo virðist, þetta sé að breytast og það megi þakka minnsta norræna ríkinu — Íslandi.

Íslandi hafi ekki bara leitt mikilvæga umræðu í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna heldur haft forystu um samþykkt ályktunar ráðsins um stöðu mannréttinda á Filippseyjum.

Jafnframt hafi Ísland fremst í flokki þegar ráðið gaf í fyrsta skipti út sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst var áhyggjum af aftökum án dóms og laga og öðrum mannréttindabrotum í Sádi-Arabíu. 

Segir í greininni að ef Íslandi hefur náð þessum árangri þá eigi stærri ríki á Norðurlöndum að geta gert hið sama. 

Undanfarið hefur ýmislegt bent til þess að svo sé. Til að mynda hafi Finnar stutt rannsókn á mannréttindabrotum í Líbýu og Danir, sem sitja nú í Mannréttindaráðinu, eru að íhuga að halda áfram að benda á mannréttindabrot í Sádi-Arabíu, að því er fram kvemur í greininni. 

Noregur tekur sæti í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á næsta ári. Mannréttindavaktin vonast til þess að Noregur verði þar rödd mannréttinda og leiði þar umræðu um mannréttindabrot í einstökum ríkjum segir ennfremur í greininni.

mbl.is

Bloggað um fréttina