Fíkniefni, nytjastuldur, þjófnaður og innbrot

Áfengi, fíkniefni og akstur bifreiða eiga ekki samleið.
Áfengi, fíkniefni og akstur bifreiða eiga ekki samleið. mbl.is/​Hari

Fíkniefni, nytjastuldur, ítrekaður akstur sviptur ökuréttindum, þjófnaður og innbrot eru allt orð sem tengjast ökumanni bifreiðar sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í Austurbænum (hverfi 108) í nótt. Áfengi, fíkniefni og akstur bifreiða á sama tíma tengjast nánast öllum þeim málum sem talin eru upp í dagbók lögreglunnar frá því klukkan 17 í gær þangað til fimm í morgun.

Ökumaðurinn sem stöðvaður var á öðrum tímanum í nótt í hverfi 109 er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, nytjastuld bifreiðar,  vörslu fíkniefna, þjófnað og innbrot.  Ökumaðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Rúmlega átta í gærkvöldi var lögreglunni tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 108 en þar hafði verið ekið á umferðarljós. Ekki urðu slys á fólki en tjónvaldur er grunaður um ölvun við akstur.

Um eitt í nótt var bifreið stöðvuð í Austurbænum  (hverfi 104).  Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og ítrekaðan akstur án gildra ökuréttinda.

Lögreglan stöðvaði síðan bifreið á Miklubraut um fimm í morgun og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Bifreiðin er ótryggð og skráningarmerki hennar því klippt af.

Afskipti voru höfð af ökumanni bifreiðar í Garðabæ í nótt sem er grunaður um ölvun við akstur. Ökumaðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Um fjögur í nótt stöðvaði lögreglan för ökumanns í Hafnarfirði sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og vörslu fíkniefna.

Ökumaður sem lögregla stöðvaði í Grafarvoginum á níunda tímanum í gærkvöldi er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Annar ölvaður ökumaður var síðan stöðvaður í sama hverfi í nótt. 

Í Breiðholtinu (hverfi 111) var ótryggð bifreið stöðvuð í gærkvöldi og skráningarmerki hennar klippt af. Á tíunda tímanum var ökumaður sem reyndist ekki vera með gild ökuréttindi stöðvaður í Breiðholtinu (hverfi 109) og í nótt var ölvaður ökumaður stöðvaður í hverfi 111. 

mbl.is