Komið verði í veg fyrir vanrækslu húsa í miðborginni

Íbúasamtökin segja alvarlega hættu geta stafað vegna viðhaldsskotrts á byggingum, …
Íbúasamtökin segja alvarlega hættu geta stafað vegna viðhaldsskotrts á byggingum, en hér má einmitt líta hús sem brann til kaldra kola við Bræðraborgarstíg í síðasta mánuði, með þeim afleiðingum að þrjú létust. mbl.is/Rósa Braga

Stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur skorar á byggingafulltrúa og heilbrigðiseftirlit að nota þau verkfæri sem embættin hafa til að koma í veg fyrir vanrækslu húsa í miðborg Reykjavíkur, sem mörg hafi staðið auð og verið vanrækt í áratugi.

Þá er skorað á borgarfulltrúa og þingmenn Reykjavíkur norður að beita sér fyrir því að lög og reglugerðir verði gerðar svo skýrar að húseigendur komist ekki upp með að láta hús sín standa auð og vanrækt um langa hríð.

Þetta kemur fram í ályktun Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur. 

„Í miðborg Reykjavíkur eru tugir húsa sem ekki eru nýtt og hafa sum þeirra staðið auð og vanrækt í áratugi. Ástand margra þessara húsa er með þeim hætti að af þeim stafar hætta, umhverfi þeirra er subbulegt og óheilsusamlegt og ítrekað hefur kviknað í þeim og hefur það sett nærliggjandi byggð í hættu. Ástæður fyrir vanrækslu eigenda þessara húsa eru sjálfsagt margvíslegar en núverandi ástand er óþolandi fyrir nágranna þessara yfirgefnu húsa, auk þess sem komið er  í veg fyrir að þau nýtist til íbúðar eða fyrir atvinnustarfsemi.“

Í greinargerð með ályktuninni segir að stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur hafi á undanförnum fundum rætt talsvert ástand nokkurra húsa í miðborginni sem teljast verði ámælisvert vegna vanhirðu.

„Við gerum okkur ljóst að takmörk eru fyrir því hversu langt borgaryfirvöld geta gengið í að gera athugasemdir við viðhald og ástand húsa í einkaeigu.  Gæta verður meðalhófs í þessu eins og öðru. Stjórn íbúasamtakanna er þó þeirrar skoðunar að viðhaldsskortur á mörgum byggingum sé orðinn það alvarlegur að hætta getur stafað af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert