Krefja Sólveigu Önnu svara

Fólk kom saman utan við Messann í síðustu viku til …
Fólk kom saman utan við Messann í síðustu viku til að mótmæla fyrri eiganda staðarins. Ljósmynd/Aðsend

Fyrrum starfsmenn veitingastaðarins Messans hafa ritað Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, bréf þar sem spurt er til hvaða aðgerða stéttarfélagið hyggist grípa til vegna meints launaþjófnaðar þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst.

Veitingastaðurinn Messinn var í eigu fyrirtækisins 22 niðri ehf. en það félag er í meirihlutaeigu Baldurs Jóhanns Kristinssonar. Reksturinn var seldur fyrir skemmstu og hefur Tómas Þóroddsson veitingamaður tekið við veitingastaðnum. Starfsmennirnir fyrrverandi komu saman við veitingastaðinn síðustu helgi til að mótmæla meðferð fyrri eigenda og þurfti í kjölfarið að loka staðnum.

Í bréfinu til Eflingar, sem stílað er á Sólveigu Önnu og Agnieszku Ewu Ziółkowsku, formann og varaformann Eflingar, segir að starfsmennirnir hafi þegar í maí sent Eflingu öll skjöl sem þyrfti til að Efling gæti sótt kröfu fyrir þeirra hönd. Þrátt fyrir að sjö vikur séu liðnar hafi Efling ekki getað klárað fyrsta skrefið sem felst í að reikna út nákvæmlega hve mikið staðurinn skuldi.

Segir í bréfinu að á meðan hafi fyrirtækinu 22 niðri ehf. tekist að selja flestar verðmætar eignir sínar. „Í hvert skipti sem við tölum við fulltrúa Eflingar er okkur sagt að skrifstofan sé upptekin við of mörg verkefni,“ segir í bréfinu sem mbl.is hefur undir höndum. „Því viljum við vita til hvaða viðeigandi ráðstafana hafi verið gripið til að takast á við málið.

Í samtali við mbl.is staðfestir Sólveig Anna að bréfið hafi borist og því verið svarað. Málið sé til vinnslu innan Eflingar og hún viti að það verði faglega unnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert