Mikilvægt að átta sig á umfangi mansals

Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að …
Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning og ráðgjöf ásamt fræðslu og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis. Vefur Reykjavíkurborgar

„Það er númer eitt, tvö og þrjú að leggja áherslu á að ná utan um mansalsmál á Íslandi og átta sig á umfanginu. Það er tilfinning um að það sé meira um mansal á Íslandi en tölfræðin segir til um,“ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir teymisstjóri Bjarkarhlíðar.

Bjarkarhlíð hefur verið falið að halda utan um umsjón með framkvæmdarteymi um mansalsmál, frá og með 1 júlí. Þar að auki mun Bjarkarhlíð vera ábyrg fyrir samhæfingu í viðbrögðum við mansalsmálum og halda utan um tölfræði um mansal á Íslandi.

Þetta er í samræmi við samkomulag milli Bjarkarhlíðar og stjórnvalda um eins árs tilraunaverkefni, en stefnt er að komið verður á fót samhæfingarmiðstöð í mansalsmálum í framhaldinu.

Samkvæmt samkomulaginu mun teymisstjóri Bjarkarhlíðar taka á móti tilkynningum þegar grunur er um mansal og boða viðeigandi aðila í framkvæmdarteymi til fundar ef þörf krefur.

Stjórn Bjarkarhlíðar hefur þá skipað faglegt teymi sem einnig kemur að tilraunaverkefninu. Teymið samanstendur af Karli Steinari Valsyni frá lögreglunni a höfuðborgarsvæðinu, Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur frá stígamótum, og Margréti Steinarsdóttur framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Hlutverkið nokkuð takmarkað

Ragna segir að mikilvægur þáttur í hlutverki Bjarkarhlíðar á komandi ári sé að koma til móts við þolendur mansals, en utanumhald tölfræði sé ekki síður mikilvægt.

Í skýrslu frá Bandaríska utanríkisráðuneytinu sem birt var í á dögunum kemur fram að erfitt sé að gera sér grein fyrir umfangi mansals á Íslandi, þar sem erfitt hefur reynst að útvega opinbera tölfræði um mansal á landinu.

Í viðtali við Morgunblaðið nýverið sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra að það sé fyrst og fremst mikilvægt að einn aðili beri ábyrgð þegar upp koma mansalsmál, til að viðbrögðin geti verið heilstæð. Hún sagði þá að Bjarkarhlíð muni gengna hlutverki því hlutverki.

Ragna segir að hlutverk Bjarkahlíðar í tilraunaverkefninu sé nokkuð takmarkað, samanborið við hlutverk mögulegrar samhæfingarmiðstöðvar.

Í áhersluskjali stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali og annars konar hagnýtingu, sem var birt í mars 2019, er mögulegri samhæfingarmiðstöð falin ábyrgð á fjölda verkefna. Meðal þeirra er að stuðla að vitundarvakningu og auka sérþekkingu, greiningu á þolendum mansals og annars konar hagnýtingu, aðstoð og vernd fórnarlamba, og utanumhald á tölfræði um mansal.

Samkvæmt samkomulagi stjórnvalda og Bjarkarhlíðar fellur t.d. fræðslu- og forvarnarstarfsemi ekki undir hatt Bjarkarhlíðar.

„Í raun og veru erum við fyrsta viðbragðið við þessum málum. Við tökum á móti tilkynningum þegar er grunur um mansal og höfum samband við viðeigandi aðila varðandi viðbrögð og velferðarþjónustu fyrir fórnarlömb,“ segir Ragna.

Hópur sem bankar ekki fast eftir hjálp

Áður en hún tók við stöðu teymisstjóra hjá Bjarkarhlíð starfaði Ragna Björg í Danmörku með þolendum mansals á skaðaminnkandi hátt. Hún segir skaðaminnkun vera mikilvæga hlutverk í starfsemi Bjarkarhlíðar, sérstaklega þegar kemur að þolendum mansals.

„Skaðaminnkandi aðgerðir eru til að ná til fólks og til að skapa traust á kerfið. Það þarf að veita þjónustu, eins og læknisþjónustu, svo fólk fari að treysta kerfinu. Fólk þarf að geta séð að það sé leið út úr mansali. Að það sjái eitthvað líf sem það getur lifað án þess að vera háð þeim sem beita þau mansali,“ segir Ragna.

„Þetta er viðkvæmur hópur, og þetta er hópur sem bankar ekki fast eftir hjálp,“ heldur hún áfram. „Það er ekki hægt að finna sterkari sjálfsbjargarviðleitni en hjá þolanda mansals. Það gengur allt út á að lifa af, og þá er mannlegi þátturinn algjörlega settur til hliðar. Þess vegna þarf að skapa traust, svo fólk þori að stíga út úr þessum aðstæðum.“

mbl.is